Erlent

Hvikult vopnahlé við lýði í Aleppo og Assad boðar "gjörsigur“

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ungbarni bjargað úr rústum í Aleppo.
Ungbarni bjargað úr rústum í Aleppo. Nordicphotos/AFP
Tveggja sólarhringa vopnahlé tók gildi í sýrlensku borginni Aleppo í fyrrinótt. Vopnahléi var komið á vegna þrýstings Bandaríkjamanna annars vegar og Rússa hins vegar en undanfarnar tvær vikur hafa harðir bardagar geisað í borginni. Hátt í þrjú hundruð hafa fallið í valinn á þeim tíma.

Vopnahléinu í Aleppo er ætlað að tryggja áframhaldandi vopnahlé á landsvísu en bardagarnir í Aleppo hafa ógnað því. Vopnahléinu var komið á í febrúar síðastliðnum til að greiða fyrir friðarviðræðum sem farið hafa fram í svissnesku borginni Genf. Viðræðurnar hafa nú flust til Berlínar.

Fréttastofa BBC greinir frá því að þeir íbúar sem hafa gefið sig á tal við fréttastofuna hafi farið út á götu í fyrsta sinn svo vikum skiptir í gær.

„Við heyrðum ekki skothvellina og sprengingarnar sem við erum orðin vön. Það er komið nóg af þessum daglegu morðum,“ sagði kaupmaðurinn Sameh Tutunji.

Ekki var þó algjör friður í borginni í gær en ríkisfjölmiðlar greindu frá því að einn hefði látist í skotárás uppreisnarmanna í þeim hluta borgarinnar sem er undir stjórn Sýrlandshers.

Her ríkisstjórnar forsetans Bash­ars al-Assad hefur átt í stríði við uppreisnarmenn sem og hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki frá árinu 2011.

Assad sendi helsta bandamanni sínum, Vladimír Pútín Rússlandsforseta, skeyti í gær þar sem hann þakkaði Rússum fyrir stuðninginn. Enn fremur sagðist Assad staðráðinn í að vinna gjörsigur á uppreisnarmönnum í borginni og segist hann ætla að „mölbrjóta niður alla andstöðu“.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×