Viðskipti innlent

Hvetur borgarbúa til að flytja vestur

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Makinn myndi líklegast ekki lengi arka strætin á Ísafirði, segir bæjarstjóri, sem hvetur fólk til að ráða sig vestur.
Makinn myndi líklegast ekki lengi arka strætin á Ísafirði, segir bæjarstjóri, sem hvetur fólk til að ráða sig vestur. Vísir/Pjetur
„Atvinnumarkaðurinn er líflegur og óhætt að hvetja fólk, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu, til að flytjast til Ísafjarðarbæjar og ráða sig til starfa,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, í samtali við Fréttablaðið.

Næg vinna sé í boði fyrir fólk af báðum kynjum. „Miklar líkur eru á að makinn fái þá einnig vinnu fljótlega, ef ekki strax,“ bætir hann við.

Hann telur upp sextán stöður sem verið er að reyna að fylla fyrir vestan og eru þær af fjölbreyttara taginu.

Hann segir einnig bjart fram undan. „Fiskeldi er í örum vexti,“ segir hann. „Umsóknir fyrir 11.000 tonna eldi í Ísafjarðardjúpi liggja nú þegar fyrir og nokkur þúsund tonn til viðbótar annars staðar í sveitarfélaginu.

Svo eru miklir möguleikar í ferðaþjónustunni. Farþegar af skipum eru nú um 50.000 á sumri og hefur farið hratt fjölgandi, þeir eru tiltölulega lítt snert gullnáma fyrir þá sem eru frjóir og hugmyndaríkir. Vöxtur í annarri ferðaþjónustu er líka mikill.“

Það er því útlit fyrir að viðsnúningur verði á fólksfækkuninni í sveitarfélaginu en hún hefur verið stöðug síðasta áratuginn. Íbúar eru nú 3.639 í sveitarfélaginu.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir þá sem leita að starfsfólki á Ísafirði:



Sjö leita að starfsfólki á Ísafirði

1. Bæjarins besta auglýsir eftir blaðamanni.

2. Matvælaframleiðandinn auglýsir eftir rafvirkja og tveimur öðrum starfsmönnum.

3. Lyfja leitar að lyfjafræðingi.

4. Bakarí leitar að starfsmanni í afgreiðslu.

5. Vesturferðir auglýsa eftir framkvæmdastjóra.

6. Ísafjarðarbær auglýsir eftir:

a) ráðgjafa í málefnum fatlaðra

b) forstöðumanni yfir búsetu fatlaðra

c) frístundaleiðbeinanda á Þingeyri

d) starfsmanni á leikskóla

e) dagforeldrum

f) sundlaugarvörðum

g) skólaliðum og stuðningsfulltrúum við Grunnskóla Ísafjarðar

7. Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun brátt auglýsa eftir starfsmanni fyrir Fab lab smiðju sína.

Listinn er ekki tæmandi.

Heimild: Af vefsíðum nokkurra fyrirtækja og frá Gísla Halldóri






Fleiri fréttir

Sjá meira


×