Innlent

Hvetja fólk til að vera án síma á sunnudaginn og eyða tíma með fjölskyldunni án truflana

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Samtökin Barnaheill stendur fyrir símalausum sunnudegi sem gengur út á að lifa eins og árið sé 1985 og vera án símans í einn dag. - Auglýsing fyrir viðburðinn.
Samtökin Barnaheill stendur fyrir símalausum sunnudegi sem gengur út á að lifa eins og árið sé 1985 og vera án símans í einn dag. - Auglýsing fyrir viðburðinn. Barnaheill/Guðmundur Kr. Jóhannesson
Samtökin Barnaheill standa fyrir áskorun um símalausan sunnudaginn 26. nóvember til að vekja athygli á áhrifum símanotkunar á samskipti fjölskyldunnar. Barnaheill skorar á fólk að segja skilið við farsímann sinn í einn dag.

„Flest þekkjum við þá tilfinningu að finnast við og fólkið í kringum okkur eyða miklum tíma í símanum og stundum verðum við mjög þreytt á áreitinu sem fylgir notkun þessara annars frábæru tækja,“ segir um viðburðinn.

Áhugasamir eru hvattir til þess að skrá sig á vefsíðu Barnaheilla og munu allir sem skrá sig fá send fimm ráð til að takast á við símalausa daginn. Þeir sem skrá sig eiga líka möguleika á að vinna vinninga. Yfir 2500 Íslendingar hafa sýnt viðburðinum fyrir símalausa daginn áhuga á Facebook og er ljóst að margir ætla að taka þátt.

„Gerðu eitthvað skemmtilegt með fjölskyldu og vinum og taktu ENGAR myndir af því,“ er markmið símalausa sunnudagsins. Auðvitað er líka verið að koma af stað vitundarvakningu, sérstaklega hjá þeim foreldrum sem eyða miklum tíma í símanum í kringum börnin sín.

Dagurinn gengur út á það að lifa eins og árið sé 1985. Símanum er stungið ofan í skúffu klukkan níu um morguninn og ekki tekinn aftur upp úr skúffunni fyrr en níu um kvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×