Innlent

Hvetja Bandaríkjamenn til að senda Úkraínumönnum vopn

Atli Ísleifsson skrifar
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain.
Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain. Vísir/AFP
Bandarískir öldungadeildarþingmenn hafa kallað eftir að Bandaríkjastjórn sendi vopn til Úkraínu í þeim tilgangi að aðstoða úkraínska herinn í baráttu sinni gegn „innrás Rússa“.

Robert Menendez, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar, segir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti verði að gjalda fyrir yfirgangssemi sína.

John McCain sagði nauðsynlegt að viðurkenna það að málið snúist ekki lengur um einhverja uppreisnarsinnaða aðskilnaðarsinna. „Þetta er bein innrás Rússa“. Lýsti McCain Vladimír Pútín Rússlandsforseta sem „gömlum KGB ofursta sem vildi endurreisa rússneska heimsveldið“.

Í frétt BBC kemur fram að McCain segist vilja beita Rússum enn frekari viðskiptaþvingunum og að nauðsynlegt sé að útvega Úkraínumönnum vopn.

Pútin greindi frá því fyrr í dag að hann vildi gera austurhluta Úkraínu að sjálfstæðu ríki. Sagði hann það vera leiðina til að  til að binda enda á átökin í landinu og segir að úkraínsk yfirvöld gætu ekki gert annað en að hlusta á kröfur fólksins í landinu.

Deilan í Úkraínu hófst í apríl síðastliðinn í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga um mánuði fyrr.

Um 2.600 manns hafa fallið í átökum úkraínska hersins og sveitum aðskilnaðarsinna síðustu mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×