Skoðun

Hvert stefnum við með skaðlegum hávaða í skóla? Eru heyrnarhlífar lausnin?

Dr. Ingibjörg Valdís Jónsdóttir skrifar
Ef hávaði í kennsluumhverfi er orðinn það hár að vinnuverndarlöggjöf mæli með því að kennarar noti heyrnarhlífar til að verja heyrnina, hvað þá með heyrn barnanna? Þeirra heyrn hlýtur samkvæmt því að vera í hættu ef ekki meiri þar sem heyrnfæri þeirra af líffræðilegum ástæðum eru jafnvel viðkvæmari fyrir hávaða en heyrnfæri fullorðinna.

Ef bæði börn og kennarar þurfa að ganga með heyrnarhlífar í kennslu, hvert erum við þá komin? Er ekki skóli mennta- og uppeldisstofnun sem byggist á talmáli sem þarf að vera heyranlegt? Þegar hávaði er kominn um og yfir þau mörk sem talin eru hættuleg heyrn þá er hann löngu kominn yfir þau mörk að við getum heyrt okkur til gagns og löngu kominn yfir þau mörk sem raddfæri okkar þola.

Ekki gefast upp fyrir vandanum

Það sem þarf að gera er að setjast niður og athuga hvað það er sem veldur hávaðanum og ráðast á vandann frá rótum en ekki að gefast upp fyrir honum og nota heyrnarhlífar. Hávaði í skólaumhverfi er erilshávaði, þ.e.a.s. hávaði sem skapast af athöfnum þeirra sem þar dvelja. Slíkur hávaði er óútreiknanlegur og ófyrirsjáanlegur og því gefur meðaltal í mælingum litla mynd. Það þarf að skoða hvaðan hávaðinn kemur og hvernig hann er.

Er þetta ómenning sem við erum andvaralaus gagnvart? Er þetta slíkt þekkingarleysi að við gerum okkur ekki grein fyrir að við getum verið að skaða bæði raddbönd og heyrn? Væri ekki nær að athuga hvort eitthvað í innra starfi skólans geti valdið þessu svo sem fjöldi barna í hóp. Getur verið að eitthvað í umhverfinu megi laga eins og t.d. val á leikföngum og leiktækjum?

Börn eru að taka út málþroska á sínum fyrstu árum og dvelja meiri part dags í leikskólum og skólum. Ef hávaðinn er of mikill ná þau ekki að byggja upp mál sér til gagns hreinlega vegna þess að þau heyra ekki nægilega vel það sem er sagt. Það leiðir af sér þá hættu að þau geti t.d. ekki lesið sér til gagns. Gæti þar t.d. verið komin ein af ástæðunum fyrir ónægum árangri í lestri?

Ef lausnin er sú að bæði kennarar og nemendur fari að ganga með heyrnarhlífar í skóla þá er kominn tími á að þróa upp aðra samskiptaleið en þá sem byggist á töluðu máli sem er okkar eðlilega leið til samskipta. Það má ekki gleyma því að hlutverk skólans hefur verið skilgreint sem fræðslu- og uppeldishlutverk. Fram til þessa hefur fræðsla og uppeldi farið fram á munnlegum nótum sem hlýtur að byggjast á því að röddin geti borið hið talaða orð til eyrnanna.




Skoðun

Sjá meira


×