Skoðun

Hvert viljum við stefna? Tökum áskoruninni!

Birgir U. Ásgeirsson skrifar
Líffræðikennari á Íslandi spurði hóp 16 ára unglinga við hvað líffræðingar starfa. Fyrst var dauðaþögn, engin svör. Eftir dágóða stund nefndi einn nemandi að líffræðingar gætu jú kannski kennt.

Ef þetta er staða raungreina í huga barna og unglinga er ekki furða að skortur sé á raunvísinda- og tæknimenntuðu fólki á Íslandi í dag. Starfsvettvangur raunvísindamenntaðs fólks hjá hátæknifyrirtækjum og -stofnunum, s.s. í líftækni, nanótækni, hafrannsóknum, vistheimt, jöklarannsóknum og loftslagsfræðum er nemendum oft ókunnur.

Efling náttúrufræðimenntunar er afar brýn. Atvinnulífið kallar á skýrari tengingu við skólana og óskar eftir hæfu raunvísinda- og tæknimenntuðu fólki, stjórnmálamenn kalla á markvissari og öflugri náttúrufræðimenntun vegna slakari frammistöðu íslenskra nema í alþjóðlegum samanburðarkönnunum og skólakerfið kallar eftir vel menntuðum raungreina- og tæknikennurum.

Menntavísindasvið Háskóla Íslands leggur um þessar mundir sitt af mörkum til eflingar náttúrufræðimenntunar og áhuga nemenda á náttúruvísindum og tækni með NaNO verkefninu (Náttúruvísindi á nýrri öld). Verkefnið er margþætt; símenntunarnámskeið fyrir kennara um ný vísindi; kennsluráðgjöf; gagnabanki fyrir kennara með viðfangsefnum náttúruvísinda og tækni 21. aldar; viðburðir með náttúrufræðikennurum þar sem þeir læra hver af öðrum og fagleg einangrun þeirra rofnar; rannsóknir á náttúrufræðimenntun á Íslandi ásamt fleiru.

Meiri samvinnu

Starfsfólk NaNO hefur nú þegar verið í samstarfi við ýmsa aðila í vinnu sinni. Þar má nefna Hafrannsóknastofnun, Matís, Sjávarklasann, Raunvísindastofnun Háskólans, Lyfjafræðideild HÍ, ORF líftækni, Orkuveitu Reykjavíkur, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðsluna, Sorpu, Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Landsvirkjun. Menntavísindasvið HÍ hefur einnig kallað á aðila vinnumarkaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri aðila til að halda umræðunni um náttúrufræðimenntun gangandi og stilla saman strengi.

Nú er kominn tími til að vinna meira saman, vinna að símenntun kennara með markvissari hætti, tengja skólana betur atvinnulífinu, leyfa nemendum að fjalla í ríkari mæli um nútímaviðfangsefni vísinda í skólum ásamt því að þjálfa nemendur í að takast á við álitamál og flókin viðfangsefni. Þannig búum við nemendur betur undir framtíðina í samfélagi sem ekki er ljóst hvað ber í skauti sér.

Þegar nemendur eru spurðir hvað líffræðingar og annað raungreinafólk gerir ættu þeir að sjá fyrir sér hlaðborð af störfum með fjölbreytta möguleika í náttúru og vísindum sem snúa að rannsóknum og þróun vara, tækja og hugmynda sem bæta líf okkar og auka sjálfbæra nýtingu auðlinda.




Skoðun

Sjá meira


×