Enski boltinn

Hvert fer Joe Hart? | Gunnleifur svarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hvar endar Joe Hart?
Hvar endar Joe Hart? vísir/getty
Joe Hart, markvörður enska landsliðsins, er í erfiðri stöðu hjá Manchester City eftir að félagið keypti Claudio Bravo frá Barcelona. Þetta segir Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks og stuðningsmaður Man City.

City gekk frá kaupunum á Bravo í gær en með komu hans eru dagar Harts hjá félaginu líklega taldir. Hann hefur þó ekki langan tíma til að finna sér nýtt félag áður en félagaskiptaglugginn lokar um mánaðarmótin.

„Það er ekki margt í boði fyrir hann í ensku úrvalsdeildinni. Það eru öll lið búin að manna þessa mikilvægustu stöðu. Ef hann fer ekki í glugganum núna verður hann þriðji markvörður hjá Man City,“ sagði Gunnleifur í samtali við Vísi í dag.

Gunnleifur og félagar í Breiðabliki mæta Stjörnunni í Pepsi-deild karla á morgun.vísir/hanna
„Þetta er rosalega erfitt fyrir markvörð að komast að hjá stóru félagi svona seint í glugganum. Hann er búinn að vera lengi hjá Man City og vill væntanlega vera hjá félagi sem er að vinna titla,“ bætti Gunnleifur við en Hart kom til Man City frá Shrewsbury Town árið 2006.

Hart hefur verið orðaður við ýmis lið á undanförnum dögum, þ.á.m. Bítlaborgarliðin Liverpool og Everton.

„Liverpool er búið að kaupa [Loris] Karius, [Alex] Manninger og eru með þrjá frambærilega markverði. Everton fékk Maarten Stekelenburg sem fór á kostum í fyrstu tveimur leikjunum.

„Þessi lið eru ekki beint að leita að markverði en ef Hart er borinn saman við þessa fjóra markverði, þá stendur hann þeim framar,“ sagði Gunnleifur en lið eins og Sunderland og West Ham hafa einnig verið nefnd til sögunnar.

Man City hefur farið vel af stað undir stjórn Peps Guardiola.vísir/getty
Hart hefur einnig verið orðaður við lið á meginlandinu eins og Borussia Dortmund og Paris Saint-Germain.

„Hart getur spilað á háu getustigi. Það væri frábært fyrir hann að fara til PSG. [Kevin] Trapp er ekki alveg nógu góður fyrir PSG og ég held að Hart sé betri kostur en hann,“ sagði Gunnleifur sem telur að það sé eflaust margt að gerast bak við tjöldin.

„Hart hefur örugglega marga möguleika. Það er bara spurning hvort hann velji þann rétta. Varðandi enska landsliðið og hans feril hefur hann varla efni á því að bíða fram í janúar. Mér finnst líklegra en ekki að hann fari og finna sér nýtt félag,“ sagði Gunnleifur.

Claudio Bravo varð Suður-Ameríkumeistari með Síle í fyrra og í ár.vísir/getty
En hvað finnst honum, sem markverði og stuðningsmanni, um þessi markvarðaskipti hjá Man City?

„Ég hef aldrei verið rosalegur aðdáandi enskra markvarða almennt. Og þó svo að Joe Hart hafi unnið titla með Man City treysti ég Pep Guardiola alveg til að taka rétta ákvörðun,“ sagði Gunnleifur.

„Hann er með mjög ákveðinn leikstíl sem Hart hentar ekki inn í. Claudio Bravo hentar aftur á móti fullkomlega í þennan leikstíl þar sem markvörðurinn tekur þátt í uppspilinu. Þetta er samt pínu dapurt þar sem Joe Hart hefur verið svo lengi hjá City.“

Claudio Bravo leikur væntanlega sinn fyrsta leik fyrir Man City á sunnudaginn þegar liðið tekur á móti West Ham United í 3. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×