Skoðun

Hvernig verst maður dómi Götudómstólsins?

Þórunn Helgadóttir skrifar
Í lýðræðisríkjum þá gildir sú almenna mannréttinda regla að maður telst saklaus þar til sekt er sönnuð fyrir rétti, hafinn yfir vafa. En fyrir dómstólum götunnar þá er slík sönnuarbyrði ekki fyrir hendi. Það er nóg að ákæra og dreifa slúðri til að taka einhvern af lífi félagslega. Þetta er leið sem hentar þeim vel, sem vilja koma höggi á meinntan óvin en hafa ekkert í höndunum til að leita til dómstóla og eru ekki heldur nógu óprúttnir til að ráðast á hann líkamlega. Hvernig er hægt að valda þeim sem manni er illa við ómældum skaða án þess að þurfa að taka ábyrgð á því? Það er hægt að myrða viðkomandi félagslega með rógburði.

Þegar slík rógsherferð fer í gang þá er athyglivert að skoða hóphegðunina. Ákveðin hópur tekur sig saman og hefur opinbera grýtingu á skotmarkinu. Meginþorri fólks veit ekki hvað þeim á að finnast, né hver sannleikurinn er og velur því að standa afskiptalaust hjá. Kannski er viðkomandi sekur og kannski ekki. En ef maður hættir sér of nálægt þá er hætta á að verða fyrir stöku steinum sjálfur. Sumir velja að bætast í árásar hópinn og taka virkan þátt í grýtingunni fullir af réttlátri reiði og dómhörku. Aðeins örfáir einstaklingar með sterka réttlætiskennd eru líklegir til að rísa upp þeim grýtta til varnar og spyrja um réttmætið. „Er búið að sanna sektina?“

Það er mjög skrýtið að upplifa það sjálfur að verða fyrir slíkri tilraun til félagslegrar aftöku. Nýjasta umfjöllunin um Kenía málið í Stundinni gengur svo langt að mér finnst ég nánast vera stödd í bíómynd. Þetta er svo ótrúlegt að þetta getur varla verið að eiga sér stað. Ég hafði einnig hingað til ímyndað mér að það væru í gangi einhverjar siðareglur hjá íslenskum blaðamönnum um það sem má skrifa um fólk án þess að hafa fyrir því lágmarks sannanir. Ef svo er þá virðist þessi ákveðni blaðamaður ekki telja það skyldu sína að fara eftir þeim.

Nú er ég komin í þá stöðu að þurfa að sanna sakleysi mitt. Ekki það að mínir ákærendur þurfi að sanna sínar fullyrðingar um sekt mína því að efanum er þegar kastað í huga þjóðarinnar og það er einmitt markmiðið. En hvernig get ég sannað sakleysi mitt? Allar mínar tilraunir til að hrópa upp „þetta er ekki satt“ virka svo lágróma. Hér er þó þrátt fyrir allt mín rödd sem kannski verður þó ekki meira en lágróma hvískur á örfáum facebook síðum.

Í Stundinni er sagt að verið sé að rannsaka mig af opinberum aðilum í Kenía fyrir fjármála misferli frá árinu 2008. Þetta er ósatt. Sannleikurinn er sá að ABC ísland og þeir Kenía menn sem þau réðu í sína þjónustu hér, fóru með allskyns innihaldslausar ásakanir til félaga eftirlitsins í Kenía. Við höfum laggt fram öll gögn, skýrslur og reikningsyfirlit til félagaeftirlitsins sem ekki hefur séð neinar frekari ástæður til rannsókna né aðgerða gegn okkur. Enda höfum við fylgt þeirra reglum um bókhald, endurskoðun og skýrsluskil í öllu.

Og hver vegna kemur þetta fyrst núna og hversvegna er ekki sagt frá því í hverju þetta misferli felst? Þetta er topp frasi til að kasta fram til að valda hámarks skaða frammi fyrir dómstól götunnar og ekki er nein þörf á því að útskýra né að sanna hvað í þessu felst. Ásökunin ein án sannana dugar til að eyðileggja traust þjóðarinnar.

Sannleikurinn um okkar líf síðustu ár er sá að eftir hrunið þá börðumst við í bökkum við að halda starfinu í Kenía gangandi. Það varð svo lítið úr íslenskum krónum á erlendri grund og slæmur efnahagur Íslendinga gerði öflun stuðningsaðila erfiða. Við gengum í gegnum gríðarlega erfiðleika hér í Kenía en með mikilli vinnu og fórn þá tókst okkur að koma starfinu á betri grunn og meira að segja stækka starfið frá 600 börnum árið 2009 í 1000 börn í byrjun árs 2015.

Til að takast þetta þá lögðum við hjónin mikið á okkur persónulega. Frá árunum 2008 til 2014 kom ég aldrei til Íslands með fjölskylduna mína af því að ég vildi spara ABC þann pening sem myndi fara í flugmiða. Við giftum okkur árið 2007 en árið 2013 fórum við í fyrsta skipti í frí saman. Þá leiguðum við okkur ódýrasta kotið á ströndinni hér innanlands í tvær vikur. Ég átti þriggja herbergja íbúð í Breiðholti fyrir hrun en af því að við vorum svo óskaplega tekjulítil hér í Kenía eftir hrun þá þurftum við að nýta leigutekjurnar af íbúðinni til að geta verið í Kenía. Við átum upp höfuðstólinn sem við áttum og það endaði með því að bankinn tók íbúðina. Samkvæmt samningi frá 2008 sem ABC flaggar gjarnan þá átti ABC ísland að borga mér 90.000 krónur á mánuði á Íslandi í laun og svo einhvern kostnað í Kenía. Í árslok 2010 hætti ABC að borga þessi 90.000 í laun. Ég gekk aldrei á eftir rétti mínum til þeirra launa.

Hefði ekki bara verið auðveldara fyrir mig að sækja þennan rétt minn til launa heldur en að reyna að stela peningum? Nú eða þá bara að koma til Íslands til að vinna fyrir góðum tekjum fremur en að standa í erfiðinu í Kenía? Hefði ekki verið miklu auðveldara og rökréttara að flytja til Íslands í það öryggi sem þar er heldur en að hanga í Afríku til að reyna að kroppa þar einhverjar krónur af fátæku hjálparstarfi? Og það sama á við núna? Væri það ekki bara auðvelda leiðin fyrir okkur hjónin í lífinu að fara heim til Íslands og yfirgefa þetta launalausa streð fyrir fátæk börn í Afríku? Og fyrir utan peningaleysið, sleppa við allar árásirnar og þessa opinberu slátrun. Hversvegna að standa í þessu núna um fimmtugt án lífeyrissjóðsréttinda, án heilsutrygginga og án þess að vera að búa í haginn fyrir efri árin með því að reyna að eignast aftur eigið húsnæði? Hvernig getur það þá staðist að ég hafi einhvern fjárhagslegan ávinning af því að vera hér í Kenía?

Í Stundinni er því einnig haldið fram að ég hafi ráðið vopnað gengi til að ráðast á skólann og trufla kennsluna. Hvernig í ósköpunum er hægt að svara þessu rugli? Hversvegna sögðu þau þá ekki frá því þegar þetta átti að hafa gerst? Þau héldu því stöðugt fram í fjölmiðlum að allt væri friðsælt og í stakasta lagi í skólanum. Var ég ákærð fyrir þetta? Eru einhverjar sannanir fyrir þessu bulli yfir höfuð?

Einnig er því haldið fram að ég hafi sett fram morðhótanir gegn fyrrum starfsmanni. Þarf ekki að rökstyðja þetta eða sýna fram á einhverjar sannanir? Hvernig fór þessi meinta morðhótun fram? Hvað sagði ég og hvernig? Hvers vegna hef ég þá ekki verið kölluð fyrir af lögreglu? Má blaðamaðurinn bara prenta svona rugl um fólk án þess að hafa kannað sannleiksgildið?

Því er einnig haldið fram að allir starfsmennirnir í Kenía hafi löngu verið orðnir þreyttir á mér og mínum stjórnunarháttum. En blaðamaðurinn vildi ekki tala við neinn af þeim 35 starfsmönnum sem enn starfa hjá mér. Þeir starfsmenn sem fóru frá okkur voru fyrst og fremst kennararnir sem ekki voru undir minni daglegu stjórn. Þeir voru undir stjórn skólastjórans sem fór með þá með sér gegn loforðum um miklar launahækkanir. Af þeim 35 starfsmönnum sem enn vinnur með mér hefur meirihlutinn verið með okkur í mörg ár og margir frá upphafi.

Stundin segir einnig frá því að ég hafi fengið móður til þess að ákæra ungan mann að ósekju fyrir líkamsárás svo að hann hafi þurfti að sitja eina nótt í fangaklefa. Í Kenía er það svo að þú getur ekki ákært fyrir líkamsárás nema að hafa áverka vottorð frá lögreglulækninum sjálfum. Þessi meinta árás átti sér stað þegar ég var á Íslandi og konan fékk áverka vottorð frá lögreglu lækninum og ákærði svo manninn. Stundin skoðar ekki að það geti verið möguleiki að árásin hafi átt sér stað heldur átti ég að hafa búið allt þetta plott til upp úr mínum illa huga. Þegar búið er að kasta svona illskulegum rógburði fram, trúir mér þá nokkur þegar ég segist vera saklaus?

Einnig er því haldið fram í greininni og á fleiri stöðum að skólanum hafi verið lokað af heilsufarsástæðum. Ekki er hægt að loka stofnun í Kenía nema eftir opinbera úttekt og niðurstaðan kynnt skriflega. Geta þau sýnt fram á eitthvað bréf sem sannar þessa fullyrðingu þeirra? Sannleikurinn er sá að það voru barnavernadaryfirvöld sem létu loka skólanum. Þegar ABC Ísland notaði nokkra af elstu drengjunum til að henda starfsfólki barnaheimilisins og okkur út og til að taka yfir skólann með valdi þá tilkynntum við það til yfirvalda. Barnaverndarnefndin fór á staðinn, gerði sjálfstæða úttekt og komst að þeirri niðurstöðu að loka þyrfti stofnuninni. Ég er búin að birta það bréf á facebook en ABC ísland hefur ekki birt neitt bréf sem sýnir að skólanum hafi verið lokað af heilsufarsástæðum. Hvar er það bréf?

Önnur lygi er að ég hafi mútað lögreglunni til að hrella Samúel Ingimarsson. Við rétt skrimtum, sjúk af peninga áhyggjum með fullt af starfsfólki og börnum á framfæri. Við áttum enga peninga til að múta neinum né standa í þessari baráttu. Við fórum til lögreglunnar með alvöru mál en við gátum engum borgað. Málið dó svo þar.

Í greininni segir einnig að stjúpfaðir minn hafi verið ákærður fyrir að hóta Gunnu Möggu. Enn önnur hrein og klár lygi. Hvar er sú ákæra?

Þetta er nú úrtak af þeim helstu lygum sem koma fram hjá Stundinni en greinin í heild er ein stór lygasúpa. Sumt er uppspuni frá rótum og annað afbakað þannig að það snýst upp í ranghverfu sína og verður því að lygi. En allur þessi andstyggilegi rógur segir meira um þá sem hann bera út heldur en mig sjálfa.

Það er hreinlega eins og að greinin í Stundinni hafi verið skrifuð eftir pöntun. Ég bauð blaðamanni Stundarinnar að tala við eitthvað af starfsfólki okkar en hún hafnaði því. Ég bauð henni einnig að tala við unglingana okkar til að fá þeirra hlið á því sem gerðist í skólanum en hún hafnaði því einnig. Ég fékk ekki að lesa yfir greinina áður en hún birtist til að gera athugasemdir við rangfærslur. Blaðamannnum finnst greinilega að það sé í góðu lagi að birta óhróður af grófust gerð um einstaklinga, án þess að hafa kannað sannleiksgildið og báðar hliðar til hlítar.

Kenía mennirnir sem tekið er viðtal við í greininni eru þeir starfsmenn/málaliðar sem ABC Ísland réði til að reyna að taka yfir félagið og starfsemina hér í Kenía. Það er auðvitað glæsilegt stökk að fara úr því að vera lágt launaður starfsmaður yfir í það að eignast slíkt félag og stjórna því fjármagni sem þar kemur inn. Þegar slíkir hagsmunir eru í húfi þá er ekki erfitt að finna fólk hér í Afríku sem er tilbúið að stökkva á slíkt tækifæri með kjafti og klóm. Það er tækifæri til að komast upp úr fátækt og setja puttana í dágóðar summur og í slíkri baráttu er það vel þekkt tæki í Afríku, bæði að nota ofbeldi og að ljúga eins og hægt er um andstæðinginn.

Og það er nú einmitt ástæðan fyrir því að ég er hér enn að berjast fyrir starfinu. Ég get ekki hugsað mér að eftirláta það sem við höfum laggt allt okkar líf í að byggja upp síðustu 9 ár í hendurnar á hrægömmum sem hugsa fyrst og fremst um eigin hag og að fylla eigin vasa. Það á endanum bitnar á börnunum og mun svo murka lífið úr því góða starfi sem við höfðum byggt hér upp. Þeir Íslendingar sem hingað hafa verið að koma til að vinna með þessum heimamönnum átta sig því miður ekki á aðstæðum hér né í hvaða átt þetta allt stefnir.

Það er köllun okkar og lífsástríða að hjálpa fátækum börnum. Við erum ekki að því fyrir launin eða af því að einhver auglýsti opna stöðu. Við lifum fyrir börnin og ætlum að halda því áfram. Í síðustu viku þá björguðum við lítilli 8 ára stúlku frá Masaai landi frá umskurn á kynfærum. Umskurnin átti að fara fram á Sunnudagsmorgunin. Í staðinn fyrir að kveljast og öskra undir rakvélarblaði í kofa í Masaai landi var hún komin í öruggt skjól ásamt 5 ára systur sinni hingað til Nairobi. Ég get aldrei séð eftir því að hafa tekið þá ákvörðun að hjálpa henni og öllum hinum börnunum líka. Það eru forréttindi.

Eftir tvær vikur opnar skólinn okkar í Nairobi á ný. Við erum spennt og stressuð í senn. Við erum gríðarlega þakklát fyrir öll börnin sem eru hjá okkur. Hlökkum til að vera með þeim og halda áfram að sjá þau vaxa úr grasi. En kvíðinn snýst um innkomuna og hvort að ABC á Íslandi hafi tekist svo rækilega að jarða orðspor okkar á Íslandi að við eigum okkur ekki viðreisnar von. Að engin stuðningsaðili geti nokkru sinni hugsað sér að styðja framar okkar starf og taka þátt í umönnun þessara barna. Sennilega hugsar meirhlutinn svoleiðis en við vonum samt að einhver minnihluti fólks sjái í gegnum allar lygarnar og sjái það sem verðugt verkefni að standa með okkur og styrkja þessi börn. Kannski erum við alltof bjartsýn að vona slíkt en á meðan enn er von þá er líf.

Fyrir ykkur þau fáu sem hafið verið að styrkja okkur síðustu mánuði þá vil ég þakka ykkur innilega fyrir stuðningin! Það hefur ekki verið til einskis.


Tengdar fréttir

Þurfum að endurheimta traust

Rúmlega 190 manns hafa hætt að styrkja götubörn ABC barnahjálpar vegna deilna innan samtakanna. Formaður og stofnandi ABC hefur hætt störfum fyrir félagið.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×