Skoðun

Hvernig auka má sölu á rafbílum

Grímur Brandsson skrifar
Ljóst er að aukinn innflutningur er á rafmagnsbílum, og að allir séu sammála um jákvæða þætti þess að nota innlenda ódýra orku til að komast milli staða. Eftir stendur sú staðreynd að við Íslendingar þurfum stöku sinnum að komast út fyrir borgarmörkin, keyra ögn fleiri kílómetra á eldri og stærri bílum, og fara upp á fjöll á eldri jeppum sem eru á landinu í dag.

Hugmynd þessi er ekki ný, og hafa Svisslendingar haft þann háttinn á lengi að eiga tvo bíla en aðeins eitt bílnúmer. Þeir hafa haft þörf fyrir að komast hratt á hraðbrautum og svo kröftuga bíla til að fara upp til fjalla. Þeir ákváðu fyrir talsvert löngu að innleiða form þar sem hver og einn gat átt í það minnsta tvo bíla, og aðeins eitt númer, og þannig aðeins eina tryggingu á báða bílana. Eina skilyrðið var að viðkomandi bílnúmer yrði að færa á milli og ekki var hægt að nota báða bíla samtímis. Við vitum það hér á Íslandi að stærstan hluta ársins rúmast innanbæjarakstur hins almenna borgara innan 100 kílómetra rammans og þannig henta rafmagnsbílar einkar vel til slíks brúks. Eina ástæðan fyrir því að margir hika við að kaupa rafmagnsbíl, er einmitt sú að í um 2-3 mánuði á ári að meðaltali kemur upp þörf fyrir að nota stærri bíl til að draga hjólhýsið að sumri og fara til fjalla með skíðin og alla fjölskylduna samtímis.

Ég spyr því alla sem lesa þetta hvort það sé ekki skynsamleg ákvörðun fyrir ríkið, að þeir sem það kjósa geti átt tvo bíla fyrir ólíka notkun? Slíkur möguleiki myndi auka jöfnum höndum nýtingu og kaup á rafmagnsbílum með tilheyrandi minnkun á mengun og innflutningi á eldsneyti en um leið nýta verðmæti eldri bíla umtalsvert.




Skoðun

Sjá meira


×