Fótbolti

Hverjir verða mótherjar ensku liðanna í Meistaradeildinni?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sergio Agüero verður vonandi klár í slaginn eftir meiðsli þegar City hefur leik í 16 liða úrslitunum eftir áramót.
Sergio Agüero verður vonandi klár í slaginn eftir meiðsli þegar City hefur leik í 16 liða úrslitunum eftir áramót. vísir/getty
Það kemur í ljós rúmlega ellefu í dag hverjir verða mótherjar ensku liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta, en þá verður dregið til fyrstu umferðar útsláttarkeppninnar.

Þrjú ensk lið verða í pottinum á eftir; Chelsea, Manchester City og Arsenal. Liverpool verður í pottinum þegar dregið verður til 32 liða úrslita Evrópudeildarinnar síðar í dag, en lærisveinum Brendans Rodgers mistókst að komast upp úr sínum riðli.

Chelsea er eina enska liðið sem hafnaði í fyrsta sæti síns riðils og sleppur því við að mæta stórliðum á borð við Real Madrid, Bayern München og Barcelona í 16 liða úrslitum. Arsenal og City geta aftur á móti dregist gegn Evrópumeisturum Real.

Lið sem voru saman í riðli og lið frá sama landi geta ekki mæst í 16 liða úrslitunum sem hefjast eftir áramót.

Fylgst verður með drættinum í beinni útsendingu hér á Vísi.

Liðin sem unnu sinn riðil: Atlético Madrid, Real Madrid, Monaco, Dortmund, Bayern München, Barcelona, Chelsea, Porto.

Liðin sem höfnuðu í öðru sæti: Juventus, Basel, Bayer Leverkusen, Arsenal, Man City, PSG, Schalke, Shaktar Donetsk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×