Innlent

Hvergi á Íslandi jafn margir vínveitingastaðir á hvern íbúa

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/Getty Images
Í Skútustaðahreppi eru alls 14 gisti- og/eða veitingastaðir með vínveitingaleyfi, en í hreppnum búa 371. Því eru 26 og hálfur íbúi um hvern vínveitingastað í hreppnum. Í frétt á vefnum 641.is er bent á að líklega séu hvergi annarsstaðar á landinu jafn margir vínveitingastaðir miðað við íbúafjölda.

Einnig kemur fram í fréttinni að í Þingeyjarsveit séu alls 12 gisti- og/eða veitingastaðir með vínveitingaleyfi, en íbúar þar séu töluvert fleiri en í Skútustaðahreppi, eða 917. Þar í sveit séu því 76 og hálfur íbúi á hvern vínveitingastað.

Jafnframt segir að 53 af þeim 129 gisti- og/eða veitingastöðum sem eru í umdæmi sýslumannsins á Húsavík séu með vínveitingaleyfi. Staðirnir séu mjög fjölbreyttir, en meðal þeirra staða sem hafi vínveitingaleyfi séu golfskálar, veiðihús, kaffihús, veitingastaðir og hótel. Margir af þessum stöðum séu þó lokaðir yfir veturinn eða í annarri nýtingu.

Ferðamenn sem heimsækja Þingeyjarsýslu geti því valið úr fjölbreyttri flóru veitinga- og gististaða á sumrin þegar ferðamannatíminn er í hámarki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×