Innlent

Hvergerðingar í stríð gegn munntóbaki hjá þjálfurum og íþróttafólki

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
„Það er ekki hægt að líða að þjálfarar og eldri iðkendur komi með úttroðna vör inn í íþróttahús,“ segir Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi Hveragerðisbæjar.

Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd Hveragerðisbæjar ætlar í samvinnu við Íþróttafélagið Hamar að fara í herferð gegn tóbaksnotkun í og við íþróttamannvirki bæjarins.

„Þetta er vandamál í öllum íþróttamannvirkjum á Íslandi, ekki bara hérna,“ segir Jóhanna. „Við fórum í herferð fyrir nokkrum árum vegna munntóbaks en það má aldrei sofna á verðinum.“

Á fundi íþróttanefndarinnar síðastliðinn miðvikudag var ákveðið að sett yrðu upp plaköt í öllum íþróttahúsum til að minna á bannið og auðvelda starfsfólki að fylgja því eftir. Nú þegar eru merkingar fyrir utan íþróttamannvirkin sem banna notkun tóbaks.



„Við verðum öll að vera á tánum því við viljum vera góðar fyrirmyndir fyrir þá sem eru yngri, sérstaklega þegar við um að fara á íþróttaæfingar,“ segir Jóhanna sem kveðst hafa fulla trú á að umræðan leiði til þess að notkun tóbaks hverfi almennt úr íþróttamannvirkjum.



Hjalti Helgason, formaður Hamars, segir að svo virðist sem tóbaksnotkun sé að einhverju leyti komin úr böndunum í íþróttamannvirkjum Hveragerðisbæjar. „Hérna er fyrst og fremst verið að tala um nef og munntóbak og ég held að þetta tengist aukinni notkun tóbaks í landinu,“ segir hann. Við þessu þurfi að bregðast.



Með herferðinni verður starfsfólki uppálagt að fylgja banni við notkun tóbaks eftir. Séu ábendingar starfsmanna ekki teknar til greina skal setja viðkomandi í bann í íþróttamannvirkinu.



Þá kom fram á fundinum að ekki væri aðeins um að ræða heilsuspillandi áhrif tóbaksnotkunar heldur er einnig um sóðaskap að ræða þar sem sígarettustubbar lenda oft á gangstéttinni við húsin og komið hefur fyrir að skálar á karlaklósettum stíflist af völdum tóbaks.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×