Skoðun

Hver vill verða öryrki?

Grétar Pétur Geirsson skrifar
Af og til kemur upp umræða um mikla fjölgun öryrkja. Oftar en ekki er látið að því liggja að fólk geti sótt um örorkulífeyri alveg eins og sótt er um atvinnuleysisbætur, málið sé svo einfalt. Því fer fjarri að hlutirnir gangi þannig fyrir sig. Fram þarf að fara nokkuð ítarlegt læknisfræðilegt mat. Svo er það spurningin hver vill verða öryrki? Er það eitthvað til að sækjast eftir? Eru bæturnar svona aðlaðandi fyrir fólk? Hámarksbætur fyrir einstakling sem býr einn eru 203.005 kr. fyrir skatt, en ættu að vera 243.600 kr. ef farið hefði verið eftir lögum um almannatryggingar, sem ekki hefur verið gert síðan 2008.

Heldur fólk virkilega að fólk bíði í röðum eftir því að verða öryrkjar til að geta lifað á ca 156-173 þúsund kr. eftir skatt á mánuði? Upphæðin fer eftir því hvort viðkomandi býr með öðrum fullorðnum eða ekki. Þessi umræða er úti á túni og lýsir fáfræði fólks sem svona talar.

Staðreyndin er sú að fjölgun öryrkja hér á landi er alls ekki meiri en í hinum Norðurlandaríkjunum. Það kemur mér hins vegar á óvart að svo sé þar sem vinnuálag er mun meira hér en víða annar staðar. Enda eiga margir við stoðkerfisvandamál að stríða vegna mikillar vinnu. Íslendingar eru harðduglegt fólk sem vinnur oft lengur en heilsan leyfir.

Sýnum öryrkjum virðingu

Einnig hefur mér þótt afskaplega dapurleg umræða sem stundum ratar inn í fjölmiðla um að einstaka öryrkjar hafi það ágætt, þá ætlar allt um koll að keyra og myndin dregin þannig upp að öryrkjar hafi það rosalega gott. Nú spyr ég: Hvað er að því að einstaka öryrkjar hafi það ágætt? Á að setja í lög að öryrki skuli aldrei vera með það háar bætur að hann geti lifað af þeim? Oftar en ekki er fólk að kljást við mikil veikindi og ætti það eitt að duga þó að fjárhagsáhyggjur bætist nú ekki þar ofan á.

Hættum að afbaka þessa umræðu um öryrkja og sýnum þeim þá virðingu sem þeir eiga skilið og mannsæmandi laun. Ef hægt væri að skipta um hlutverk, er þá einhver sem vill skipta með því að láta öryrkjanum í té heilsuna, taka við sjúkdómi öryrkjans og þurfa að lifa á 156.000 til 173.000 kr. á mánuði? Það efast ég um.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×