Lífið

Hver er þessi Amy Schumer?

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Schumer hefur vakið mikla athygli síðastliðin ár fyrir óheflaða framkomu og heiðarlegt grín.
Schumer hefur vakið mikla athygli síðastliðin ár fyrir óheflaða framkomu og heiðarlegt grín. Vísir/Getty
Amy Schumer er orðin ein áhrifamesta grínleikkona í heimi, hún hafnaði boði um að taka við af Jon Stewart með Daily Show og hefur notið mikilla vinsælda með þáttum sínum Inside Amy. Fyrsta kvikmynd hennar í fullri lengd, Trainwreck, kom út í sumar en ekki eru allir sammála um að myndin hafi sömu lúmsku feminísku skilaboðin og fyrri verk Schumer.

Hún er kona sem flestir taka eftir og hafa á henni skoðun, myndbrot af gríni hennar á Youtube hafa mörg hver verið skoðuð yfir milljón sinnum og hún var á lista Time yfir áhrifamestu einstaklinga ársins 2015.

Vísir vildi kynna sér þessa konu sem hefur orðið svo áhrifamikil í gegnum grínleik og skoða hvernig hennar framganga hefur haft áhrif á feminíska umræðu sem hefur verið lifandi lengi á Íslandi.

Hreinskilið, „ósiðsamlegt“ grín

Schumer leikur ekki aðeins aðalhlutverk myndarinnar Trainwreck heldur skrifaði hún handritið sjálf og hefur sagt að myndin sé að stórum hluta sjálfsævisöguleg. Amy er vinsæl gamanleikkona sem snertir á viðfangsefnum sem hafa alla jafna verið talin „tabú“ í þjóðfélaginu.

„Þegar ég kom hingað í kvöld var eina markmið mitt að nærbuxurnar mínar litu ekki út eins og ég hefði snýtt mér í þær þegar ég kæmi heim,“ sagði hún til dæmis í þakkarræðu Glamour Women of the Year. Viðburðurinn miðar að því að heiðra konur; stjörnur, pólitíkusa, íþróttakonur og aðra kvenkyns leiðtoga sem veita öðrum konum innblástur. 

Grín hennar er oft á tíðum ýkt og miðar að því að láta lönd og strönd þá tilhneigingu fólks, og kannski sér í lagi kvenna, að forðast að tala um hluti sem eru taldir ósiðsamlegir af einhverjum ástæðum og óheillandi.

„Sprengja af heiðarleika“

Schumer færir fram nýtt og ferskt innlegg inn í feminíska umræðu með hreinskilni sinni, bæði hér á landi og í heiminum öllum, meðal annars þar sem hún er talin læða feminisma inn í umræðuna og beita svokölluðum „lúmskum-feminisma.“ Hún forðast ekki að benda á veikleika sína og reynir ekki að virðast fullkomin í ófullkomnum heimi.

Tilda Swinton, leikkona, tilnefndi Schumer á árlegan lista Time yfir hundrað áhrifamestu einstaklingana í heiminum. Swinton lýsti henni þar sem draumavinkonu allra í barnaskóla.

Schumer og Swinton á Gotham Independent verðlaunaviðburði í desember á síðasta ári.Vísir/Getty
„Hún er þessi sem er líklegust til þess að vera þér við hlið þegar hrekkjusvínin nálgast. Þarna er hún, þessi sem ræðst inn til að bjarga þér og ryður þeim úr vegi með látum.“ Swinton lýsti Schumer sem „sprengju af heiðarleika“ eða „honesty bomb.“ Swinton lék yfirmann Schumer í Trainwreck, ýkta, grunnhyggna konu sem ritstýrir karlatímariti sem birtir greinar á borð við: „Þú ert ekki hommi, hún er leiðinleg,“ og „Fær neysla hvítlauks sæði til að bragðast öðruvísi?“

Swinton, sem gjörbreytti útliti sínu fyrir myndina, sagði í viðtali við Hollywood Reporter að tímarit á borð við það sem hún ritstýrir í myndinni séu í raun til – tímarit þar sem bölsýni og tilfinningaleysi ræður ríkjum.

Schumer féll að fótum Kanye West og Kim Kardashian á Time galakvöldi fyrir áhrifamesta fólk í heimi.Vísir/Getty
Á galakvöldi Time vegna fyrrnefnds lista henti Schumer sér fyrir framan Kanye West og Kim Kardashian til að beygja sig og bugta fyrir þeim á dramatískan máta. „Ég hedl að allir hafi fattað brandarann, nema kannski Kanye, sem stökk ekki bros,“ segir í grein Guardian um grínleikkonuna.

Niðurlægjandi kynferðisleg upplifun varð opinberun

Í greininni er einnig bent á augnablikið sem gerði öllum ljóst hversu sterk ímynd fyrir konur Schumer í raun er.

„Ég stend hér og ég er stórkostleg, fyrir ykkur. Ekki vegna ykkar. Ég er ekki þeir sem ég sef hjá. Ég er ekki talan á vigtinni minni. Ég er ekki mamma mín. Ég er ég sjálf. Og ég er þið öll og ég þakka ykkur fyrir,“ sagði hún í ræðu á kvöldi Gloriu Steinem sem fagnaði hugsjónakonum. Í ræðunni deildi hún með áheyrendum atviki sem leiddi til opinberunar fyrir hana. Þá hafði hún farið heim með manni sem hringdi í hana um morgun eftir blindafyllerí. Hún gerði sér grein fyrir því að hún hafði einungis sofið hjá manninum vegna óöryggis varðandi eigið útlit og þegar hún áttaði sig á þessari staðreynd tók hún að bera meiri virðingu fyrir sjálfri sér og stóð meira með sér í framtíðinni.

Ræðuna í heild sinni má lesa hér.

„Trainwreck“: Lestarslys eða femínískur sigur?

Ekki eru allir sammála um það hversu gott innlegg í feminíska umræðu kvikmyndin Trainwreck er.

Í grein á Buzzfeed „In Trainwreck Amy Schumer calls bullshit on post-feminism“ eða „Með Trainwreck sýnir Schumer fram á kjaftæði post-feminismans“ greinir Anne Helen Petersen myndina ítarlega og telur hana sýna hversu óeðlilegar kröfur eru gerðar til kvenna, sérstaklega í kjölfar svokallaðrar póst-femínískra áhrifa þátta á borð við Sex and the city til dæmis. Þættirnir sýni einhleypar konur sem sækja styrk sinn í að líta óaðfinnanlega út, versla mikið, skemmta sér og stunda tilfinningalaust kynlíf. Í raun hverfist þó líf þessara kvenna í kringum getu þeirra til að næla sér í mann í feðraveldissamfélagi að því er segir í greininni.

Hins vegar sýni Trainwreck fram á hversu óraunhæfur slíkur veruleiki er og and-feminískur, karakter Schumer telji sig hamingjusama og sjálfstæða en í raun er henni sama um allt, hún kemur fram við sjálfa sig eins og hlut, býst við að karlmenn geri það sama og drekkur til að þurfa ekki að takast á við tilfinningar sínar.

(Nú er réttast að vara við eftirfarandi umfjöllun þar sem hún eyðileggur ef til vill myndina fyrir áhorfendum sem enn hafa ekki farið í bíó.)

Amy Schumer og Bill Hader í hlutverkum sínum í myndinni Trainwreck í upptökum síðasta sumar.Vísir/Getty
En þegar karakterinn Amy kynnist manni sem hún verður hrifin af og kemur vel fram við hana fer hún að sjá hvernig sú hegðun sem hún taldi að samfélagið krefðist af sér er í raun byggð á óöryggi og lágu sjálfsmati. Hún eyðileggur að lokum sambandið eftir góðgerðasamkomu. Það er ekki fyrr en hún endurskoðar hvernig hún kemur fram við sjálfa sig, hættir hegðun sem á eingöngu rót sína í hræðslu að hún áttar sig á að hamingjuna er að finna í sjálfstrausti, sjálfsþekkingu og með því að hafna þeim sem láta þér líða eins og þú sért einskis virði.

Myndin hefur verið gagnrýnd fyrir að Amy hafi þurft karlmann til þess að komast að þessari niðurstöðu en Buzzfeed vill meina að karakterinn hafi í raun ekki breyst mikið heldur aðeins hætt að auðmýkja sjálfa sig af ótta við að vera raunveruleg kona.

Amy Schumer hefur vakið mikla athygli fyrir innlegg sitt í umræðu um hlutgervingu kvenna.Vísir/Getty
Telur Schumer gera gys að nútímakonunni

Grein á New York Post „Amy Schumer's Trainwreck is far from feminist triumph“ eða „Trainwreck er langt frá því að vera feminískur sigur“ er í öllum meginatriðum ósammála greiningu Buzzfeed. Alexandra Villarreal segist í upphafi myndarinnar hafa tengt við karakterinn Amy. Hún hafi verið fersk, sjálfsörugg, kynferðislega frjáls og þurfi ekki karlmann til að fullkomna sig. Villarreal segir ekkert að því að vilja hjónaband og fjölskyldu, það sé einfaldlega ekki hennar draumur í lífinu. Hún sé metnaðargjörn í starfi og láti það ganga fyrir. „Ég gæti skipt um skoðun en eins og er líkar mér líf mitt sem einhleyp kona í New York. Ég á hund, af hverju ætti ég að vilja gaur? Ekkert af þessu merkir að ég sé kannabis-reykjandi alkóhólisti, þvert á móti, ég er andstæðan við djammara.“

Hún segist ekki á móti samböndum en að hún þurfi ekki karlmann til þess að líða vel og að þess vegna hafi hún orðið óánægð með Trainwreck. „Handritið gerir grín að nútímakonunni í staðinn fyrir að hvetja hana, hún er „lestarslys“, ekki sterkur einstaklingur sem leggur áherslu á eigin metnað. Karakterinn þarf að breytast, sjá ljósið og hætta að sofa hjá mörgum og verða kona eins manns.“

Schumer sagði í viðtali við Hollywood Reporter: „Ég held að myndin sé í raun ástarbréf til systur minnar og hvernig ég komst að því að ég var að skaða sjálfa mig og brjóta mig niður var með því að verða ástfangin.“ Hún segir myndina að hálfu leyti sjálfsævisögulega.

Gerir grín að nauðgunarmenningu og hlutgervingu kvenna

Amy Schumer fæddist 1. júní árið 1981 í Manhattan í New York. Fyrir áttu foreldrar hennar son og síðar eignaðist hún litla systur sem hún hefur unnið mikið með í grínskrifum. Hún hefur verið uppistandari frá árinu 2004 en vakti fyrst heimsathygli sem stjarna þátta sinna Inside Amy Schumer sem hófu göngu sína á Comedy Central árið 2013. Fyrir hlutverk sitt hefur hún verið tilnefnd til fjölda verðlauna, þar á meðal Emmy verðlauna.

Inside Amy Schumer eru sketsaþættir þar sem nánast allir sketsarnir hverfast um kynbundna fordóma. Í einum skets spilar hún tölvuleik og karakterinn í tölvuleiknum hennar verður fyrir nauðgun. Í leiknum kemur upp spurning: „Það var ráðist á þig af samstarfsmanni þínum. Viltu kæra?“ Þegar Schumer velur „Já“ þá kemur upp melding: „Ertu viss? Veistu að hann á fjölskyldu? Breytir það ekki afstöðu þinni?“ Í öðrum skets fylgist Amy með hóp manna ræða hvort þeir myndu sofa hjá henni. Hún lætur sem neikvæðar athugasemdir fái ekkert á hana og segir við sjálfa sig: „Tveir þeirra sögðust vilja sofa hjá mér,“ til að hughreysta sig. Þá hefur skets sem sækir innblástur í hina þekktu mynd 12 angry men eða Tólf reiðir karlmenn vakið mikla athygli en í honum ræða tólf kviðdómendur um dildóinn hennar Amy.

Willa Patkinson hjá Slate lýsti þættinum sem femínískum á lúmskan máta: „Schumer, höfundurinn, tekst á við hlutgervinguna á meðan Schumer, karakter þáttanna, huggar sig við hana.“ Hún segir skilaboð Schumer skýr og komast til skila með því að setja þau í kynþokkafullan, druslulegan, sjálfshatandi búning og sérstaklega þar sem þau eru sett fram í gríni sem sé besta leiðin til að ná til fjöldans.

Schumer hefur haft áhrif á umræðuna, á því er enginn vafi. Hún hafnaði tækifæri til þess að taka við The Daily Show af Jon Stewart vegna þess að „hún vildi ekki að næstu fimm ár væru fyrirfram ákveðin.“ Hún er með mörg verkefni í smíðum. Þar má nefna gamanmynd sem hún hyggst skrifa ásamt Jennifer Lawrence auk þess sem hún hefur unnið talsvert með systur sinni eins og áður var nefnt. Þá er hún hvergi nærri hætt með Inside Amy Schumer en fjórða þáttaröðin birtist á skjánum á næsta ári.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×