Skoðun

Hver er óvinurinn?

Sigurður Flosason skrifar
Er Gunnar Bragi utanríkisráðherra búinn að finna hann? Ekkert gengur að gera Pútín að óvini okkar Íslendinga, þó að Gunnar Bragi sé a.m.k. tvisvar búinn að heimsækja fasistastjórnina í Kænugarði til að styrkja hana með þeim árangri að búið er að drepa einhverjar þúsundir manna þar um slóðir. Ennfremur lætur Gunnar Bragi okkur Íslendinga styðja allar refsiaðgerðir NATO gegn Pútín.

En Pútín fæst ekki með nokkru móti til að vera óvinur okkar og þess vegna beitir hann refsiaðgerðum gegn öllum NTO-þjóðum nema okkur. Af þeim sökum er Gunnar Bragi í vandræðum. Það er ekki auðvelt verk að verða sér úti um óvin fyrir okkur Íslendinga.

Miðað við fjárframlög til hermála á fjárlögum áranna 2014 og 2015 hlýtur hann þó að vera fundinn. Varla samþykkir Alþingi að verja til þessa málaflokks af skattfé almennings í landinu rúmum hálfum milljarði króna á ári til NATO, auk kostnaðar af heræfingum og loftrýmisgæslu með loforði um meira, nema Íslendingar eigi einhvern óvin.

Á kaldastríðsárunum vissu allir að Rússagrýlan var óvinur Íslendinga, en hún reyndist frekar meinlaus og gaf upp öndina fyrir rúmum 20 árum.

En það hljóta allir að sjá að það er ekki hægt til lengdar fyrir okkur Íslendinga að vera í hernaðarbandalagi eins og NATO og eiga engan óvin. Það verður nokkuð flókið mál ef NATO á að verja okkur fyrir vinum okkar.

Fyrir 100 árum voru Grýla og Leppalúði helstu óvinir íslenskra barna en bæði eru þau löngu dauð og koma ekki til greina sem óvinir nema Gunnar Bragi sé genginn í barndóm.

Ósama Bin Laden er dauður og getur þess vegna varla verið hættulegur óvinur. Og ekki getum við lagt í milljarða kostnað gegn óvini sem er dauður.

Eitthvað er lifandi ennþá af talibönum í Afganistan þó að við höfum reynt að stuðla að fækkun þeirra. Þeim fjölgar þó alltaf, hvernig sem á því stendur, en samt eru þeir ekki trúverðugir óvinir til að splæsa milljörðum af almannafé til að verjast, enda búa þeir upp í fjöllum í fjarlægu landi.

Hund-Tyrkjann flæmdu forfeður okkar burtu með göldrum og sálmasöng, svo ekki er það hann.

Jón Þumall lét brenna Kirkjubólsfeðga í Skutulsfirði vegna veikinda sem hann kenndi þeim um, en var jafnveikur eftir sem áður svo að ekki voru þeir réttir óvinir. Það er sem sé vandi að velja sér óvin.

En er það ósanngjörn krafa þeirra óbreyttu skattborgara á Íslandi sem greiða sinn hlut í hermálakostnaði fjárlaganna að þeir fái að vita hver sé óvinur okkar Íslendinga?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×