Skoðun

Hver á landið mitt Ísland?

Björn Jóhannsson skrifar
Undanfarin misseri hefur deilan um landareign og meðferð þess lands blossað upp og er mjög hávær um þessar mundir þar sem „eigendur“ lands vilja ráðskast með landið eftir eigin höfði og telja sig eigendur þess, og vísa þá gjarnan í stjórnarskrárvarinn heilagan rétt!

Hugtökum ruglað saman

Eignarrétturinn er svo sannarlega varinn í stjórnarskránni, en hvað er eign? Er ekki eign afurð framkvæmda einstaklinga eða hóps einstaklinga sem lagt hefur hugsun og vinnu í sköpun eignar sem þá er stjórnarskrárvarin, og tryggir viðkomandi umráð yfir þeirri sköpun? Eignarréttur er hugtak, nytjaréttur er annað hugtak, en oft hef ég á tilfinningunni að þessum tveim hugtökum sé ruglað saman, meðvitað eða ómeðvitað.

Auðlindir eign þjóðarinnar

Nytjaréttur er þegar einstaklingar eða hópur þeirra notar gæði í umhverfinu sem enginn einstaklingur eða hópur einstaklinga hefur skapað, heldur er fyrir í umhverfinu og kallast því AUÐLIND. Helstu auðlindir eru; LOFT, VATN og LAND auk allra þeirra gæða sem í þeim felast. Auðlindir í náttúru Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Auðlindir Íslands markast af auðlindalögsögu landsins í samræmi við alþjóðlega samninga þar um. Utan lögsögunnar tekur við sameiginleg auðlind mankynsins alls í umsjá hinna sameinuðu þjóða heimsins.

Vatnalög og þjóðlenda

Í tilraunum okkar til að setja landsmönnum nýja stjórnarskrá, hefur þokast í rétta átt með skilgreiningu á mismuni nytja og eignar á auðlindum, má þar nefna til hugtökin „vatnalög“ og „þjóðlenda“.

Einfalda má þessi hugtök í stjórnarskrá með því að skilgreina í eitt skipti fyrir öll að: Allt land frá fjallatoppum ásamt sjávarbotni að auðlindalögsögu er „ÞJÓÐLENDA“. Og allt vatn í hvaða formi sem er, er auðlind í umsjón þjóðarinnar, loftið yfir auðlindalögsögunni allri í þá hæð sem alþjóðalög skilgreina er auðlind í umsjón og ábyrgð þjóðarinnar.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×