Innlent

Hvatningarfundur lífeyrisþega - "Læk“ á loforðin

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
ÖBÍ og  LEB boða til hvatningarfundarins,"Læk“ á loforðin, á Austurvelli klukkan 15:00 í dag.
ÖBÍ og LEB boða til hvatningarfundarins,"Læk“ á loforðin, á Austurvelli klukkan 15:00 í dag. mynd/365
Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) og Landssamband eldri borgara (LEB) boða til hvatningarfundar á Austurvelli klukkan 15:00 í dag.

Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ segir að það sé mikilvægt að fólk átti sig á því að nú sé tækifæri fyrir stjórnvöld að lagafæra fjárlögin þannig að hægt sé að standa við gefin loforð.

Árið 2009 hafi verið farið að skerða grunnlífeyrinn, sem þangað til hafi verið heilög tala. Loforðin séu í raun þau að bæta kjör lífeyrisþega og afturkalla þessar miklu skerðingar sem hafa verið fyrir þennan hóp frá árinu 2009.

Báðir stjórnarflokkarnir hafi lofað að laga þessar skerðingar. Það hafi aðeins verið byrjað á því í júlí en það var svo lítið og fólk varð fyrir mjög miklum vonbrigðum.

Hann segir að á sumarþinginu hafi í raun verið byrjað á öfugum enda og með því á hann við að það var byrjað á því að leiðrétta þá lífeyrisþega sem voru skást settir.

Þessar leiðréttingar séu samt algjörar grundvallaleiðréttingar og þau séu ekki vanþakklát fyrir það. Þetta hafi bara komið svo fáum til góða, þetta hafi aðeins breytt stöðunni fyrir um 1% örorkulífeyrisþega. Þetta hafi komið fleiri eldri borgurum til góða.

Á hvatningarfundinum munu þau  Guðmundur og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður LEB ætla að flytja hvatningarávörp og lúðrasveit mun leika ættjarðarlög.

„Ég hvet sem flesta til að mæta og sýna samstöðu og stuðning og sýna þann kraft sem í okkur er,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×