Íslenski boltinn

Hvar vill Atli spila hjá KR? - „Á miðjunni“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Knattspyrnumaðurinn Atli Sigurjónsson, leikmaður bikarmeistara KR, var heimsóttur í KR-heimilið af spéfuglunum í Áttunni á Bravo í síðustu viku.

Atli kom víða við í skemmtilegu viðtali og var hreinskilinn þegar hann var spurður um hvernig barn hann hafi verið á Akureyri?

„Ég var mjög ofvirkur, leiðinlegur og óþekkur. Allt það versta. Ég er búinn að gleyma þessu sjálfur en þegar ég hitti gamla bekkjarfélaga er ég spurður t.d. hvort ég muni eftir því þegar ég kastaði stól í gluggann og eitthvað. Ég veit ekki hvort þau séu að ljúga þessu eða ekki,“ sagði Atli.

Atli gekk í raðir KR frá Þór árið 2012 og hefur síðan orðið Íslands- og bikarmeistari með Vesturbæjarliðinu.

„Mamma var ekki alveg tilbúin að láta mig fara. Eða hún sagði að ég væri ekki tilbúinn,“ sagði Atli og hló.

Aðspurður hvort hann væri ekki miðjumaður svaraði Atli um hæl: „Ekki hjá KR. Þar er ég oftast settur á kantinn.“

Hann var þá beðinn um að horfa í myndavélina og senda Bjarna Guðjónssyni, þjálfara liðsins, skilaboð um hvar hann ætti að spila á vellinum. „Á miðjunni,“ var svarið.

Eftir að fara í sturtu saman kepptu Atli og spyrillinn í þriggja stiga keppni sem gekk vægast sagt illa.

Miðjumaðurinn bráðskemmtilegi lýsti svo hvernig týpískur dagur væri hjá honum.

„Í morgun vaknaði ég og byrjaði „save“ með Southampton í FIFA og kom svo hingað og hitti ykkur. Síðan fer ég upp í rækt eftir þetta. Síðan fer ég heim að vinna í því að fá Gareth Bale heim í Southampton. Í kvöld fer ég svo í bíó með Gary Martin á Dumb and Dumber.“

Allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×