Skoðun

Hvar hvílir ábyrgðin á bættum heimi?

Sandra Rán Ásgrímsdóttir skrifar
Við gerum okkur flest grein fyrir því hvað þarf að gera til þess að tryggja að komandi kynslóðir geti búið við sambærilegar aðstæður og við búum við í dag. Við þurfum að draga úr losun gróðurhúsa lofttegunda og huga að sjálfbærri nýtingu á náttúruauðlindum. Undirritun Parísarsáttmálans var stórt skref í rétta átt en líkt og komið hefur fram þá þarf mikið að breytast til að markmið sem þar eru sett fram náist. Hvernig getum við þá tryggt að árangur náist – á hverjum hvílir ábyrgðin?

Hvert skref í rétta átt, hversu stórt sem það er, skiptir máli. Árangur byggist ekki aðeins á því að stjórnvöld beiti þeim aðferðum og hvötum sem þau hafa valda á eða á aðgerðum einstaklinga. Fyrirtæki og stofnanir gegna einnig mikilvægu hlutverki í því að árangur náist í loftslagsmálum.

Fyrirtæki og stofnanir eru leiðandi afl í samfélaginu, kannanir sýna að einstaklingar sem að t.d. flokka í vinnunni eru líklegri til þess að gera það líka heima hjá sér. Á vinnustöðum hvílir því mikil ábyrgð þegar kemur að því að sýna gott fordæmi og vinna að bættri umhverfisvitund í samfélaginu. Hver vinnustaður er ólíkur öðrum og sérsniðin stefnumótun í samstarfi við starfsfólk sem tekur á þeim þáttum sem að snertir starfsemi fyrirtækis eða stofnunarinnar er besta leiðin að árangri. Innleiðing stefnu sem felur í sér mælanleg markmið getur aðstoðað vinnustaði við að skilgreina hvar það getur haft áhrif og fylgjast með árangri sínum. Huga þarf ekki aðeins að starfseminni sjálfri heldur einnig hagsmunaaðilum og virðiskeðju vinnustaðar við mótun stefnunnar ásamt áhrifum þess á umhverfi og samfélag í víðu samhengi. Slíka stefnu er hægt að kalla sjálfbærnistefnu vinnustaðar þar sem hún tekur tillit til áhrifa á bæði umhverfi og samfélag með það að upplagi að stuðla að sjálfbærri þróun.

Innleiðing sjálfbærnistefnu hjá fyrirtækjum þarf ekki að vera flókið ferli og byggist í megindráttum á því sama og önnur stefnumörkun. Fyrst þarf að kortleggja hvar vinnustaðurinn stendur þegar kemur að umhverfismálum, auðlindanotkun og neikvæðum umhverfisáhrifum. Að því loknu eru sett niður markmið um úrbætur, leiðir til að ná þeim markmiðum og mælikvarðar til að meta frammistöðu. Lykilatriði er að skilgreina mælikvarða en það gerir vinnustað kleift að fylgjast með árangri sínum og hvar þarf að gera betur. Það þarf ekki að byrja á því að bjarga heiminum og oft er gott að byrja á raunhæfum markmiðum. Fyrsta verkefnið getur því verið að setja sér markmið um að draga úr úrgangi eða pappírsnotkun á vinnustað og í framhaldinu eru skilgreindar aðgerðir til þess að ná markmiðum. Með tímanum er hægt að fjölga markmiðunum og gera þau víðtækari og metnaðarfyllri.

Staðreyndin er sú að margar hendur vinna létt verk og ef við leggjum öll okkar af mörkum eru meiri líkur en minni á að við getum dregið úr áhrifum loftslagsbreytinga – ábyrgðin um bættan heim hvílir á okkur öllum.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×