Lífið

Hvar finn ég flugrútu?

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Mæðgurnar Guðrún og Elísabet hafa stofnað síðuna Hop Hop Iceland.
Mæðgurnar Guðrún og Elísabet hafa stofnað síðuna Hop Hop Iceland. vísir/valli
„Þetta var nú meira til gamans gert og ákvað ég að kýla á þetta í sumarfríinu, enda var líka rigning allan tímann þannig að þetta átti vel við,“ segir Guðrún Ólafsdóttir sem hefur stofnað vefsíðuna Hop Hop Iceland ásamt dóttur sinni, Elísabetu Thoroddsen.

Um er að ræða vefsíðu þar sem finna má alls kyns upplýsingar sem við koma ferðalögum. „Ég hef sjálf ferðast rosa mikið og hafði mikið hugsað um svona síðu þar sem hægt væri að nálgast upplýsingar um hagstæða samgönguhætti og allt sem tengist ferðalögum. Ég á mikið af kunningjum úti um allt og fann einnig fyrir áhuga á Íslandi frá þeim.“

Inni á síðunni eru margir tenglar inn á fleiri síður sem bjóða ýmsa þjónustu á góðum kjörum. „Þarna eru tenglar á síður sem hafa hjálpað mér mjög mikið. Þarna eru líka praktískar upplýsingar eins og hvar ég ætti að fara í bólusetningar, í hvaða löndum þarf ég vegabréfsáritun eða hreinlega hvar ég finn flugrútuna,“ segir Guðrún.

Síðan er ný en Guðrún ætlar sér að gera hana að þeim stað sem fólk hvaðanæva að úr heiminum getur fundið sér allar upplýsingar og hagkvæmustu leiðirnar í sínum ferðalögum. „Ég ætla að reyna að fá vini mína erlendis til þess að blogga jafnvel þannig að góðum skilaboðum verður komið áleiðis. Þetta verðir kjörinn vettvangur fyrir þá sem nenna ekki að gúggla.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×