Innlent

Hvar eiga skilnaðarbörn að vera yfir jólin?

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Mikilvægt er að hlusta vel á börnin, að sögn allra viðmælenda Vísis.
Mikilvægt er að hlusta vel á börnin, að sögn allra viðmælenda Vísis.
Senn líður að jólum og þá er að ýmsu að huga. Eitt af því sem þarf að huga að eru börn foreldra sem eru ekki í sambúð, stundum nefnd skilnaðarbörn. Eftir því sem skilnuðum og sambúðarslitum hefur fjölgað hefur börnum foreldra sem eru ekki í sambúð fjölgað.

Í spjalli blaðamanns Vísis við viðmælendur sem helga sig þessum málaflokki kemur fram að jólin eru gjarnan erfiður tími og mikilvægt að taka tillit til þarfa barnsins.

„Fyrst og fremst á að taka mið af þörfum og hagsmunum barnsins, þegar ákveðið er hvernig haga skuli jólahaldi,“ segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

„Börn vilja að foreldrar sínir eigi góð samskipti og það er mikilvægt að börn eigi samskipti við báðar fjölskyldur yfir hátíðirnar þar sem það er hægt," segir Valgerður Halldórsdóttir, félagsráðgjafi og ritstjóri vefsíðunnar stjúptengsl.is. Síðan, sem Valgerður heldur úti, er hluti af starfsemi samtaka stjúpfjölskyldna.

Langflestir ná samkomulagi

Allir viðmælendur Vísis eru sammála um að flestir foreldrar nái samkomulagi um hvernig jólahaldi er háttað, séu þeir ekki saman.

„Það er allur gangur á því hvernig jólahaldið er. Það fer nánast eftir hverri fjölskyldu fyrir sig," segir Birgir Grímsson, formaður samtakanna Foreldrajafnrétti og heldur áfram:

„Eitt fyrirkomulag, sem maður heyrir mikið um, er að börnin skiptist á að vera hjá foreldrum sínum og eru þá á aðfangadagskvöld hjá öðru foreldrinu og gamlárskvöld hjá hinu. En auðvitað er þetta misjafnt. Taka þarf tillit til þarfa og aðstæðna svo eitthvað sé nefnt."

Í upplýsingum frá Sýslumanni Reykjavíkur kemur fram að algengast sé að foreldrar semji sín á milli. Umgengni um hátíðirnar er hluti af svokallaðri lágmarksumgengni sem er tiltekin í barnalögum.

Valgerður hjá stjúptengslum segist heyra mest um það að fólk semji sín á milli. „Þegar slíkir samningar eru gerðir þarf að gæta þess að hafa þá skýra, til þess að eyða óvissu og kvíða barnanna.“

Andlegt ofbeldi að leyfa barninu ekki að hitta hina fjölskylduna

Valgerður segir það mikilvægt að foreldrar hafi hagsmuni barnsins að leiðarljósi þegar samkomulag um umgengni yfir jólin er ákveðið. „Það er líka mikilvægt að ættingjar séu ekki að skipta sér af samkomulagi foreldranna. Maður hefur heyrt af fólki sem gagnrýnir foreldra fyrir að „leyfa" hinu foreldrinu að hafa barnið yfir jólin. Auðvitað vill enginn vera einn um jólin, en foreldrar sem tryggja að barnið þeirra fái að umgangast hitt foreldrið eru með þroskaða afstöðu. Þeir foreldrar setja sínar tilfinningar til hliðar og gæta hagsmuna barnsins. Það er mun heilbrigðari afstaða."

Valgerður bætir við: „Deilur og ósætti foreldra er í raun og vera það versta sem fólk gerir börnum sínum sínum. Að svipta barn tækifæri að umgangast aðra fjölskyldu sína er andlegt ofbeldi."

Birgir hjá Foreldrajafnrétti segist hafa heyrt dæmi þess að sumar mæður, sem í flestum tilfellum eru svokallaðir lögheimilisforeldrar, fari ekki að samkomulagi sem hafi verið gert við föðurinn. Hann telur að þær horfi þannig framhjá vilja eða velferð barnsins sem á í hlut. Hann segir að móðurrétturinn sé mjög sterkur og að feður geti átt erfitt með að breyta hlutunum. Hann segir starfsmenn Sýslumanns oft úrræðalausa þegar annað foreldrið virðir ekki samkomulag um umgengni yfir hátíðirnar.

Í svörum frá Sýslumanni eru þessi orð Birgis staðfest. Þar kemur fram að eina úrræðið sem starfsmenn embættisins hafi séu dagsektir. Til þeirra er helst gripið ef umgengni stoppar alveg, þ.e. ef annað foreldrið sviptir hinu foreldrinu umgengisrétti til lengri tíma. Þess vegna geti verið erfitt fyrir embættið að beita sér þegar ágreiningurinn stendur yfir í stutta stund.

Í svörunum kemur einnig fram að embættið þurfi stundum að koma inn í deilur foreldra um umgengni yfir jólin. Þá er horft til búsetu barns, tengsl þess við foreldra sína og forsögu; ef barnið hefur upplifað jólin með báðum foreldrum árin á undan.

Mikilvægt að foreldrar séu úrræðagóðir

En þrátt fyrir að hluti foreldra deili ná langflestir samkomulagi um hvar börn þeirra eigi að vera yfir jólin. Viðmælendur Vísis áttu nokkur ráð fyrir foreldra, hvernig tryggja megi að jólin verði sem ánægjulegust fyrir alla.

„Jólin eru ekki bara aðfangadagskvöld," segir Magrét María, umboðsmaður barna, og heldur áfram: „Foreldrar verða gæta þess að vera ekki of uppteknir að þetta séu þeirra jól eða jól hins foreldrisins. Frekar að nálgast þetta út frá þörfum barnsins. Fólk getur búið sér til hefðir og þannig notið annarra daga í jólafríinu en endilega aðfangadagskvöldins." Með því að búa til nýja hefðir gætu foreldrar því haft jákvæð áhrif á barnið og fjölgað þannig notalegum stundum í jólafríinu.

Valgerður tekur undir þessar hugmyndir Margrétar Maríu, að reyna að búa til nýjar hefðir og fjölga góðum og skemmtilegum dögum í fríinu. „Ég varð ofboðslega fegin þegar það rann upp fyrir mér að það er hægt að halda jólin á fleiri en einn hátt," segir hún og hlær. Valgerður tiltekur einnig fleiri ráðleggingar til foreldra: „Mér finnst til dæmis mikilvægt að skilyrða ekki jólagjafir. Að gefa kannski peysu sem má bara vera á öðru heimili barnsins. Jólgjafir eru eignir barnsins. Einnig ráðlegg ég foreldrum sem eiga erfitt með að setja tilfinningarnar til hliðar að fá aðra til að hjálpa sér. Við vitum að jólin geta verið erfiður tími, þeim fylgja oft miklar tilfinningar. Þá er ráðlegt að fá einhvern nákominn ættingja til þess að ferja börnin á milli heimila, ef hætta er á að foreldrar rífist eða ef útlit er fyrir að samskiptin verði ekki góð." Hún segir þó mikilvægt að sýna foreldrum skilning. „Þetta getur verið erfiður tími fyrir fólk sem er fráskilið." Í því sambandi bendir hún á símaráðgjöf félagsstjúpfjölskyldna.

Bæði Margrét María og Valgerður eru sammála um að taka eigi mið af hagsmunum barnins. „Mikilvægt er að hlusta á börn og taka tillit til vilja þeirra.En það þarf að gæta þess að ábyrgðin sé ekki á þeim, að þau þurfi ekki að velja. En það þarf að reyna að finna þarfir barnsins. Stundum breytast þessar þarfir eftir aldri," segir Margrét María.

Valgerður bætir við það sem Margrét María segir: „Foreldrar þurfa að gera sér grein fyrir því að börnin eru ekki endilega að telja daga og mínútur yfir hátíðirnar. Þau vilja, í langflestum tilfellum, fyrst og fremst góð samskipti foreldra sinna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×