Innlent

Hvalfjarðargöngin opin á ný

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá framkvæmdunum um helgina.
Frá framkvæmdunum um helgina. Vísir/Valli
Malbikun slitlags í Hvalfjarðargöngunum gekk samkvæmt áætlun um helgina og var opnað fyrir umferð um göngin á nýjan leik klukkan sex í morgun. Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, segir á heimasíðu eignarhaldsfélagsins að verkið hafi sóst vel.

Strax og göngunum hafði verið lokað a föstudagskvöld hófu verktakar vinnu við að fræsa upp slitlag í syðri hluta ganganna, sem var svo malbikaður í kjölfarið. Að því loknu var slitlagið fræst upp að norðanverðu og malbikunarframkvæmdir settar af stað. Önnur akrein gangnanna var malbikuð í þessari umferð en síðari hluti verksins verður unninn á næsta ári.

Gylfi segir mikla skipulagningu liggja að baki framkvæmd sem þessari enda hafi fjölmargir aðilar komið að framkvæmdunum, ekki aðeins í göngunum sjálfum heldur einnig við gjaldskýlið. Þá hafi lokunin verið nýtt til þess að sinna ýmsu viðhaldi og endurbótum, sem lúta að öryggi vegfarenda.

„Þetta var eina helgin þar sem hægt var að stilla saman strengi allra þeirra sem að þessu þurftu að koma,“ segir Gylfi.

Á þriðja tug flutningabíla hefur verið stöðugt á ferðinni með malbikskurl úr fræsingunni úr göngunum og nýtt malbik til að leggja ofan á. Auk þeirra hefur fjöldi annarra þjónustubifreiða og tækja verið á ferli í og við göngin og áætlar Gylfi að um 60 manns hafi komið að framkvæmdunum þegar mest var.

Þetta er fyrsta malbikunin í göngunum frá því þau voru opnuð 1998. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að slitlagið entist í 6-8 ár í besta falli en reyndin hefur orðið önnur og betri.

Þrátt fyrir lokun ganganna fyrir amennri umferð var séð til þess um helgina að bílar í neyðarakstri (sjúkralið, slökkvilið og lögregla) hafi komist um göngin á framkvæmdatímanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×