Lífið

Hvaða þýðingu hefur lækið? Getur verið eineltistól, hrós eða kaldhæðni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Baldvin Þór Bergson og Erna Hrund Hermannsdóttir eru sérfræðingar Vísis á Facebook.
Baldvin Þór Bergson og Erna Hrund Hermannsdóttir eru sérfræðingar Vísis á Facebook. vísir
„Í raun má segja að fólk leggi ýmsa merkingu í að læka og það má sjá talsverðan kynslóðamun. Eldri kynslóðir eru líklegri til að taka lækinu bókstaflega, þ.e. að með því sért þú að veita annað hvort samþykki eða stuðning fyrir því sem er skrifað eða síðunni sjálfri,“ segir Baldvin Þór Bergson, Stjórnmálafræðingur og fjölmiðlamaður, um þýðingu læksins á Facebook.

Hvað þýðir eiginlega að læka? Er það alltaf jákvætt? Eða hefur þetta dýpri merkingu. Vísir leitar eftir svörum við því. Hegðun fólks á Facebook er orðin gríðarlega stór hluti af manneskjunni, enda er mikill meirihluti virkur á miðlinum. Á Facebook heitir þessi umræddi takki „like“ en í þessari grein verður stuðst við sögnina að „læka“.

„Yngri kynslóðir eru hins vegar miklu frjálslegri með þetta og læk getur þýtt mjög margt. Það að læka síðu þýðir oft ekkert annað en að þú viljir fá upplýsingar eða fylgjast með því sem gerist á henni. Það er t.d. hægt að sjá þetta hjá stjórnmálaflokkum en hjá þeim eldri er algengt að fólk læki bara þann flokk sem það styður á meðan að yngra fólk lækar fleiri flokka til að fá upplýsingar.“

En hefur merking læksins breyst eitthvað með tímanum?

„Já, í rauninni hefur þetta færst frá því að vera þessi bókstaflega merking sem Facebook notar yfir í að vera ekkert meira en skráning á síðu. Við þurfum þó að gera greinarmun á því að læka síðu og læka komment, því að á meðan fyrri merkingin hefur breyst nokkuð mikið er síðari merkingin enn nokkurn veginn sú sama.“

Fólk óhræddara við að nota lækið

Baldvin segir að það sem hafi þó breyst sé að fólk er óhræddara við að nota læk. „Það er algengt þegar fólk byrjar að nota Facebook að það tekur tíma að átta sig á þeim reglum sem gilda. Fólk er því yfirleitt tregara að læka í byrjun því það áttar sig ef til vill ekki á hvort að í því felist skuldbinding eða stærri yfirlýsing en það er tilbúið að gefa.“

Er alltaf jákvætt að læka?



„Þetta er eiginlega mjög flókin spurning. Læk getur verið svo afskaplega einstaklingsbundið og þess vegna er mjög varhugavert þegar fólk túlkar læk sem stuðning við sinn eigin málstað. Maður hefur séð það í fjölmiðlum að fólk segir svo og svo margir eru sammála mér því svo og svo margir hafa lækað það sem ég sagði.“

Hann bætir við að læk sé ekkert endilega samþykki eða stuðningur við málstað.

„Það getur t.d. bara þýtt „gott hjá þér að segja þetta“. Rannsóknir sem hafa verið gerðar sýna einfaldlega að merking hvers læks getur verið mjög misjöfn, fólk notar það á ólíkan hátt og er ekkert endilega að meina það sama frá einu læki til annars. Varðandi það hvort læk er alltaf jákvætt má segja að það sé ekkert endilega þannig, sérstaklega ekki þegar um er að ræða læk á síður, en þá getur það verið hlutlaust.“

Baldvin bætir því við að læk séu hins vegar sjaldnast neikvæð þótt vissulega geti einhverjir ákveðið að nota það til að vera kaldhæðnir.

„Hættan er sú að slík kaldhæðni nái ekki út fyrir mjög þröngan hóp. Svo eru dæmi um einelti sem birtist ef til vill í því að fólk notar læk til að byggja upp væntingar þess sem birtir status eða mynd, aðeins til þess að gera lítið úr viðkomandi síðar. En þetta er eins og ég segi undantekning.“

Það studdu ekki allir Gylfa Ægis

Baldvin skrifaði á sínum tíma grein í Stjórnmál og Stjórnsýslu þar sem hann skoðaði notkun stjórnmálaflokka á Facebook. Hann mun einnig kenna tvö áfanga við Háskóla Íslands haust sem tengjast samfélagsmiðlum og hegðun fólks á þeim.

Hann segir að þegar fólk lækar fréttir sé það ekki endilega að styðja það sem kemur fram í fréttinni.

„Ég man til dæmis eftir því að Gylfi Ægis hefur sagt í fjölmiðlum að fjöldi læka á frétt um hann þýði að sami fjöldi styðji hann. Þetta er algengur misskilningur en í stuttu máli er alls ekki hægt að túlka læk á frétt sem beinan stuðning við efni hennar. Fólk getur verið mjög ósammála viðhorfi sem kemur fram í fréttinni en er engu að síður ánægt með að fréttin sé skrifuð.“

Fólk er mikið inn á Facebook.vísir/getty
Læk hafa oft vakið mikla athygli hér á landi og má þá helst nefna þegar stóra Moskumálið kom upp fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2014. Þá lýsti Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir því yfir að hún vildi láta afturkalla lóð til múslima. Sú umræða byrjaði mein einu læki.

Sjá einnig: Oddviti Framsóknar vill afturkalla lóð til múslima

Einnig má nefna til sögunnar afar umdeilt læk en þegar frávísunarkrafa Gísla Freys Valdórssonar í Lekamálinu var tekin til meðferðar þann 9. september síðastliðinn spannst umræðan aðallega að hlutlægnisskyldu ákæruvaldsins. Fannst verjanda Gísla Freys að rannsóknaraðili hefði einblínt á það sem gæti bent til sektar umbjóðanda síns en leitt hjá sér öll atriði sem ýtt gætu undir sakleysi hans. Þannig hafi hlutlægnisskyldu ekki verið gætt. Þá sagði verjandi saksóknara jafnframt vanhæfan í málinu vegna þess að hann hafði lækað við færslu á Facebook.

Sjá einnig: Lekamálið tekið til efnislegrar meðferðar

„Ég hef alltaf séð fyrir mér að læk sé ákveðið form hróss. Þér líkar vel við það sem aðilinn er að gera, myndina, stöðufærsluna og allt það. Læk er líka merki um stuðning í ákveðnum aðstæðum,“ segir Erna Hrund Hermannsdóttir, stjörnubloggari og samfélagsmiðlaráðgjafi.

„Inn á persónulegum síðum er læk svo sannarlega jákvætt. Þegar kemur að fyrirtækjasíðum ætti fólk að gera sér grein fyrir því að með breytingum sem hafa verið gerðar á Facebook að með því að setja læk eða athugasemd inn á fyrirtækjasíðum dreifir þú ósjálfrátt skilaboðunum inná þína fréttaveitu og til þinna vina. Hér áður fyrir birtist alltaf allt í fréttaveitu þess sem lækaði síðuna. Í dag er það ekki þannig, í dag þarftu að fá þessa sjálfvirku dreifingu af stað með stuðning frá þínum fylgjendum eða að borga fyrir það.“

En hefur merking læksins breyst eitthvað með tímanum?

Hún segir að ef fólk lækar fyrirtækjasíður sé það að samþykkja þeirra skilaboð og dreifa þeim um leið.

„Í dag eru margir hverjir komnir í ákveðna samkeppni með lækin. Inná persónulegum síðum eru t.d.  til dæmi um það hjá yngri kynslóðinni sérstaklega hinni alræmdu Y-kynslóð að fara í eins konar læk keppnir þegar kemur að prófíl myndum. Krakkar eru þá að tagga vini sína á sínar prófíl myndir til að fá dreifingu inn á síður annarra til að fá fleiri læk á myndina. Ef myndin nær ekki ákveðnum fjölda læka innan ákveðins tíma taka þau hana oft bara út.“

Notað sem eineltistól

Erna segir að lækið sé á ákveðin hátt orðið verkfæri til að hrósa eða jafnvel verkfæri sem hægt sé að nota sem eineltistól.

„Það er síður en svo jákvæð þróun. Inn á fyrirtækjasíðum er það þessi dreifing sem fyrirtæki sækjast nú eftir, þetta organic reach eða sjálfvirk dreifing sem er það sem fyrirtæki þurfa ekki að greiða fyrir. Sem þýðir þá að lækið þitt er orðið mun verðmætara heldur en það var áður sem er að mínu mati bara gott, það hvetur fyrirtæki til að senda frá sér gott efni, góð skilaboð og vanda til verksins. Það má því segja að merking læksins hafi breyst töluvert á fáum árum en það er líka orðið mun verðmætara heldur en það var.

Er alltaf jákvætt að læka?

Persónulega finnst mér að það ætti alltaf að vera það, læk er ákveðið form hróss og ég sjálf reyni að tileinka mér það að fara ekki sparlega með lækin mín hvort sem það er á síðum fyrirtækja eða á persónulegum síðum. En auðvitað þarf líka að vanda valið og velja á milli þegar kemur að því t.d. að læka fyrirtækjasíður. Ekki setja læk bara því þú gætir unnið einhvern vinning, settu læk því þú hefur áhuga á því að fylgjast með því sem er í gangi hjá merkinu eða fyrirtækinu.“

Fréttaveitan fyllist

Hún segir að þannig komi maður í veg fyrir að fréttaveitan fyllist af upplýsingum sem maður hefur engan áhuga á.

„Mér finnst sjálfri gaman að setja læk bæði hjá vinum og vandamönnum og hjá síðum sem ég fylgist með. Ég fer ekki sparlega með mín læk og nýti þau til að senda frá mér hrós og stuðning. En stundum koma auðvitað upp aðstæður þar sem þú veist ekki beint hvort það sé við hæfi að setja læk við stöðuuppfærslu kannski hjá vini/vinkonu sem var að missa náinn aðstandanda, lenda í slysi eða er bara að segja frá einhverju leiðinlegu atviki.“

Erna segir að í þeim tilfellum þurfi  hver og einn að meta hvað þau vilja gera.

„Mér finnst að í þeim aðstæðum þarf fólk að meta það sem svo að læk sé ekki endilega að þér finnist gaman af því að aðilinn sé að lenda í þessu, í þeim aðstæðum er læk merki um stuðning, merki um það að þú hugsir til einstaklingsins með hlýjum hug og að þú hafir tekið þér tíma til að lesa það sem hann var að skrifa og viljir að hann viti það. Svo jú það er yfirleitt alltaf jákvætt að læka sama hver stöðuuppfærslan er það er alltaf hugsunin á bakvið lækið sem skiptir máli.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×