Fastir pennar

Hvað viljum við?

Magnús Guðmundsson skrifar
Fjöldamorðin í München á föstudag, þar sem átján ára gamall piltur myrti níu manns og særði fjölda fólks áður en hann tók eigið líf, eru ekki aðeins áfall fyrir þýsku þjóðina heldur Evrópu alla. Skammt er liðið frá hinni skelfilegu árás fjöldamorðingjans í Nice, hryðjuverkaárásunum í París og fleiri voðaverkum sem eru okkur um þessar mundir ofarlega í huga.

Það er mikið umhugsunarefni að fjöldamorðin í München minna um margt á skotárásir ungra karlmanna, einkum á skólabræður sína og -systur, sem hafa farið sem faraldur um Bandaríkin á undangengnum misserum. Þar í landi er auðvelt aðgengi að hvers kyns skotvopnum, sem framleidd eru með það að markmiði að eyða sem flestum mannslífum á sem skemmstum tíma, í nafni frelsis og réttar einstaklingsins til vopnaburðar og sjálfsvarnar. Hinn átján ára gamli Ali David Sonboly bjó þó ekki í slíku samfélagi heldur nýtti sér netið til þess að verða sér úti um vopn með ólöglegum hætti. Viðbrögðin í Þýskalandi eru líka á þann veg að kalla eftir hertri vopnalöggjöf og hindra enn frekar aðgengi að skotvopnum sem hljómar nú ólíkt skynsamlegra en að leitast við að hlaða vopnum á hvert mannsbarn eins og manni finnst á stundum að sé markmiðið í Bandaríkjunum.

En það er líka mikilvægt að leita að skýringum á slíkum voðaverkum eins og því sem átti sér stað í München á föstudaginn og íslenskt samfélag þarf að vera reiðubúið til þess að taka þátt í slíkri skoðun sem hluti af hinni vestrænu veröld. Við þurfum að vera reiðubúin til að horfast í augu við að á þessu séu hvorki einfaldar né einhlítar skýringar. Viðbrögðin sýna að fyrst er horft til þess möguleika að hér sé á ferðinni hryðjuverkaárás, en ef það stenst ekki er líf og saga viðkomandi árásarmanns skoðuð gaumgæfilega. Þar er oft litið til persónulegra vandamála s.s. mögulegs þunglyndis, geðsjúkdóma og félagslegrar einangrunar. Það er auðvitað eðlilegt að grannskoða líf slíkra manna en við þurfum að muna að geðveikir eru ekki verri en annað fólk. Geðsjúkdómum fylgir ekki eðlislæg illska, langt því frá.

Við þurfum því að hafa hugrekki til þess að skoða samfélagið í heild. Skoða þær aðstæður sem við sköpum fólki og hvort við stöndum okkur með viðunandi hætti í að gæta hvert að öðru. Við þurfum líka að skoða hvort efnishyggjudrifið samfélag er að verða ungu fólki um megn, ungu fólki sem hefur lent undir í lífinu og finnst það eiga sér litla sem enga framtíð. Ef við viljum að samfélag okkar sé byggt á náungakærleika og samhjálp þurfum við að velta við hverjum steini, skoða hvað má betur fara og vera reiðubúin til þess að gera breytingar í átt betra lífs fyrir okkur öll.

Í þessu er alls ekki fólginn dómur yfir því samfélagi sem við búum í og höfum skapað, heldur eðlileg og réttmæt þörf fyrir að gera betur fyrir okkur sjálf jafnt sem afkomendur okkar. Það hljótum við öll að geta sammælst um að sé okkur öllum til góðs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. júlí.






×