Fótbolti

Hvað þýðir stórsigur Króatíu fyrir strákana okkar?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði.
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði. Vilhelm
Vonir Argentínu um að komast í 16-liða úrslit á HM í Rússlandi minnkuðu talsvert eftir 3-0 tap fyrir Króatíu í D-riðli í dag. Ísland og Nígería eru í sama riðli og mætast í Volgograd á morgun.

Sigur Króatíu þýðir að liðið er komið áfram í 16-liða úrslitin. Ísland og Nígería eiga enn möguleika að ná toppsæti riðilsins af Króötum en Argentínumenn ná þeim ekki úr þessu.

Hvað strákana okkar í íslenska landsliðinu varðar hafa úrslitin í kvöld vitaskuld enga þýðingu ef Íslandi tekst ekki að ná í fleiri stig í keppninni. En það eru fjölmargir möguleikar í stöðunni sem vert er að fara yfir hér.

Það er ljóst eftir úrslit kvöldsins að Ísland mun vinna riðilinn með sigrum í báðum þeim leikjum sem strákarnir okkar eiga eftir. Það er líka ljóst að fjögur stig til viðbótar munu duga Íslandi til að komast upp úr riðlinum og í 16-liða úrslitin.

Sigur á Nígeríu á morgun mun setja íslenska liðið í afar sterka stöðu en dugir þó ekki einn og sér til að tryggja mönnum áfram í 16-liða úrslitin. Til að gulltryggja það þyrfti stig til viðbótar úr lokaleiknum gegn Króatíu.

En þess má geta að það gæti dugað fyrir okkar menn að vinna bara annan leikinn sem eftir er. Ef að tvö eða fleiri lið enda með jafn mörg stig mun markatala ráða úrslitum og í því tilfelli gæti 3-0 tapið í dag reynst Argentínumönnum afar dýrkeypt. Úrslit í innbyrðisleikjum skiptir ekki máli, heildarmarkatala ræður förinni á heimsmeistaramótinu.

Leikmenn íslenska landsliðsins eru vitaskuld ekkert að velta þessu fyrir sér og einbeita sér aðeins að því að vinna leikinn á morgun. Leikur Íslands og Nígeríu hefst klukkan 15.00.

Staðan í D-riðli:

1. Króatía 6 stig (Markatala: 5-0)

2. Ísland 1 (1-1)

3. Argentína 1 (1-4)

4. Nígería 0 (0-2)


Tengdar fréttir

Króatar munu hvíla lykilmenn gegn Íslandi

Króatía er búið að tryggja sér farseðilinn í 16-liða úrslit á HM í Rússlandi þrátt fyrir að eiga eftir að leika einn leik í riðlinum, einmitt gegn Íslendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×