Skoðun

Hvað þarft þú?

Þóranna K. Jónsdóttir skrifar
Á starfsferlinum og í viðskiptum er okkur stöðugt kennt að við þurfum að mæta þörfum hins aðilans. Markaðsdrifin fyrirtæki mæta þörfum markaðarins og starfsferilskráin er löguð að þörfum fyrirtækisins – það er jú markaðssetning á okkur sjálfum. En hvað með okkur? Getum við alltaf verið það sem hinn aðilinn vill? Eigum við ekki líka að hugsa um okkur sjálf?

Ég vinn mikið með minni fyrirtækjum í markaðsmálum. Höfuðreglan í markaðsstarfinu er að uppfylla þarfir markaðarins.

Flestir stofna hins vegar fyrirtæki vegna þess að þeir hafa brennandi ástríðu fyrir því sem þeir gera, og við vonum að sem flestir velji sér starfsvettvang á sömu forsendum. Það vefst fyrir mörgum viðskiptavinum mínum að samræma þetta tvennt: Það sem markaðurinn vill og það sem ég sjálf(ur) vil. Það er fullkomlega skiljanlegt. Hins vegar ef ég er risafyrirtæki með fullt af fjármunum og tækifæri á markaði, þá spyr ég ekki að því hvort ég hafi ástríðu fyrir því. Ég spyr bara hvort það er viðskiptalega góð ákvörðun. Síðan ræð ég rétta fólkið til að mæta þörfum markaðarins.

Hver er þinn X-faktor?

Sá sem rekur lítið fyrirtæki, eða sækir um starf, þarf að huga að fleiru en bara hvað hinn aðilinn vill. Við þurfum að huga að því hvað við viljum. Hver við erum. Hver ástríða okkar er og hver sérstaða okkar er. Það er nógu erfitt fyrir að reka lítið fyrirtæki en það er ómögulegt án ástríðu. Sérstaða okkar getur heldur ekki bara ráðist af því sem hentar fyrir markaðinn, því að hún er samofin persónuleika okkar sjálfra. Þess vegna þurfum við fyrst að leita inn á við og finna fyrir hvað við stöndum, hver okkar ástríða er og hvað er sérstakt við okkur sem við getum nýtt okkur, hvort sem er í viðskiptum eða starfi. Rúna vinkona mín kallar þetta að finna X-faktorinn sinn. Þetta er okkur öllum svo mikilvægt að hún er m.a.s. búin að skrifa bók um það! Við megum ekki vanmeta mikilvægi þess að setja fyrst súrefnisgrímuna á okkur sjálf, áður en við uppfyllum þarfir annarra.

Ég er heppin. Ég hef náð að samræma ástríðu markaðsnördsins því að byggja upp fyrirtæki sem mætir markaðsþörf og viðskiptalegt vit er í. Ég hef náð að finna minn X-faktor. Hver er þinn?




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×