Innlent

Hvað segja íbúar Reykjanesbæjar?

Sveinn Arnarsson skrifar
Skuldir sliga bæjarsjóð Reykjanesbæjar og mun taka tæpan áratug að ná skuldaviðmiði sveitarfélaga.
Skuldir sliga bæjarsjóð Reykjanesbæjar og mun taka tæpan áratug að ná skuldaviðmiði sveitarfélaga. Fréttablaðið/gva
Íbúar Reykjanesbæjar eru áhyggjufullir yfir stöðu sveitarfélagsins. Fram hefur komið að bæjarstjórn Reykjanesbæjar stendur fyrir miklum fjárhagslegum vandræðum sem mun taka allt að áratug að ná tökum á. Fréttastofa fór á stúfana og ræddi við íbúa sveitarfélagsins um stöðu mála. Fram kom í svörum þeirra að nú þurfi líklega að skera niður og minnka þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Íbúar eru sammála um að hægt sé að komast í gegnum þennan vanda en það muni taka langan tíma.

Bæjaryfirvöld hafa gefið það út að grunnþjónusta sveitarfélagsins verði varin með öllum ráðum. Þó þurfi að skera niður í þjónustu sveitarfélagsins um 500 milljónir og auka tekjur bæjarins um 400 milljónir. Þessar 400 milljónir verða líklega sóttar með hærri sköttum og hærri arðgreiðslum frá fyrirtækjum í eigu sveitarfélagsins.

Arngrímur Ingimundarson knattspyrnuþjálfari og ferðaþjónustuaðili:

„Staðan er ekki eins og best verður á kosið. Við verðum hins vegar að fara að fá atvinnutækifæri í Reykjanesbæ. Það er ekkert verið að gera í atvinnumálum fyrir íbúa sveitarfélagsins. Erlend fyrirtæki eru að yfirtaka flest allt í Leifsstöð og lítið að frétta af álveri í Helguvík. Við megum ekki gleyma að á Reykjanesi er stórbrotin náttúra og verðum við að nýta þau tækifæri sem gefast í ferðaþjónustu. Í sambandi við skuldirnar þá er þetta mjög súrt og fráhrindandi til að fá gott fólk í bæinn.“

Guðmundur Hlíðar Björnsson og Jóhanna Pálsdóttir.

Guðmundur Hlíðar: „Já, þetta er auðvitað skelfingarástand og það er líklegt að þetta muni hafa einhver áhrif á þjónustu. Við skulum samt vona að íbúar fari ekki frá Keflavík en það getur kannski verið örlítið erfiðara að laða fólk í bæinn.“



Jóhanna: „Það fyrsta sem maður veltir fyrir sér er ungt fólk sem er að hefja búskap hérna. Þetta getur auðvitað haft áhrif á það fólk. Vonandi nær sveitarfélagið að leysa þá erfiðleika.“

Ragnheiður Ólafsdóttir, snyrtiráðgjafi:

„Ég tel mig vera heppna að eiga ekki barn á leikskólaaldri eða grunnskólaaldri. Þessi niðurskurður mun bitna harðast á því fólki. En nú er ljóst að það verður skorið niður og þjónusta skert. Það er leitt að sjá hvernig fyrir bænum er komið. Fyrri meirihluti stóð ekki í stykkinu og fór of geyst í Helguvík að mínu mati. Það er ekki hægt að hefja vinnu við álver og hafa ekki hugmynd um hvaðan orkan á að koma.“


Sigurður Ólafsson og Lilja Þorsteinsdóttir, skóarar: 

Sigurður
: „Þjónustan er mjög góð hérna í Reykjanesbæ, hér er frítt í sund og strætó og mjög gott að búa. Þótt þessi skýrsla sé auðvitað kolsvört skiptir máli að koma sér út úr þessu klandri. Ég er viss um að okkur mun takast það verkefni. Það hefur gengið illa í Helguvík og við eigum eftir að sjá ábatann á þeirri framkvæmd.“

Lilja:„Það á að vera hægt að skera niður í sveitarfélaginu. Þjónustan er góð en ég hef svo sem ekkert rosalega mikið vit á þessu en ég held að við getum náð árangri með Helguvík.“


Tengdar fréttir

Tiltekt boðuð hjá Reykjanesbæ

Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar er þakklátur fyrir málefnalegan og góðan íbúafund í Stapa. Þar var sýnt fram á gríðarlega erfiða stöðu sveitarfélagsins og tiltekt boðuð í framhaldinu í bókhaldi Reykjanesbæjar. Gefur fyrri meirihluta ekki góða einkunn fy




Fleiri fréttir

Sjá meira


×