Skoðun

Hvað má nú til bjargar verða?

Jakob S. Jónsson skrifar
Það var fróðlegt að sitja félagsfund Neytendasamtakanna fimmtudaginn 17. ágúst sl., þar sem kynnt var fjárhagsstaða samtakanna sem verið hefur til umræðu í fjölmiðlum og valdið titringi innan stjórnar. Á sínum tíma var þáverandi formaður borinn þungum sökum um eyðslu og óráðsíu á bak við stjórnarmenn; það endaði sem kunnugt er með því að hann sjálfur hjó á hnútinn og sagði af sér.

Þegar skoðuð er bág fjárhagsstaða samtakanna, eins og frá henni var greint á fundinum, virðist einsýnt að þáverandi formaður á hreint enga sök á henni. Helst mátti skilja, að hann hefði með appinu Neytandinn reynt að blása nýju lífi í samtökin; en stjórn reyndist þar ósammála og Neytandinn heyrir nú sögunni til. Þá var nokkuð gert úr ýmsum fjárhagslegum voða, en eins og „starfandi varaformaður“ greindi frá, var ekki útséð um hvert stefndi – en stjórn virtist engu að síður einblína á verstu hugsanlegu ófarir og miðaði varnarstarf sitt við það. Sagði m.a. upp öllu starfsfólki samtakanna, en svo virðist eins og þær uppsagnir séu með öllu ólögmætar! Illt er, ef rétt reynist og skammgóður vermir velþenkjandi stjórn ef hún situr uppi með persónulega ábyrgð af þeim gjörningi.

Þá er ljóst eftir fundinn að stjórnin sjálf hafði ekkert – nákvæmlega ekkert! – fram að færa sem mætti verða til bjargar samtökunum. Það er helst að „vonast sé til“ og „í besta falli“, en ekkert áþreifanlegt, engin aðgerð, ekkert átak annað en að treysta á stuðning stjórnvalda – en hvernig má búast við að stjórnvöld bjargi samtökum sem hafa kippt grundvellinum undan þjónustusamningum við hið sama stjórnvald með því að segja upp öllu starfsfólki?

Vandi samtakanna virðist einkum felast í að stjórnarmenn þekkja illa hvernig kaup gerast á eyrinni í félagsstörfum. Eins og skipurit Neytendasamtakanna lítur út er það í besta falli kjánalegt að stjórn lýsi vantrausti á formann; það getur eingöngu þing samtakanna gert. Þá er í hæsta máta óeðlilegt að varaformaður samtakanna virðist ófær um að axla ábyrgð; hann kallar sig „starfandi varaformann“ og samtökin eru því í raun formannslaus. Það er fáheyrt ábyrgðarleysi af stjórn að leysa ekki slíkan vanda og bendir til vanhæfis í félagsstörfum og vandræðagangs sem er misbjóðandi jafn mikilvægum samtökum og Neytendasamtökin eru.

Fundarmenn virtust helst á því að boða ætti til aukaþings samtakanna; þar væri hægt að stokka spilin upp á nýtt, kjósa nýja stjórn og formann og horfa fram á veginn. Það verður þó ekki horft fram á veginn nema til komi áætlun um aðgerðir, starfsáætlun, sem taki mið af því að Neytendasamtökin eru til þess að standa vörð um hagsmuni neytenda.

Kannski væri besta og einfaldasta lausnin sú að fyrrum formaður tæki afsögn sína aftur og að stjórnarmenn með tölu kyngdu því glundri sem verið hefur, legðu að baki fyrri væringar og tækju höndum saman – í þágu neytenda og sjálfum sér til gæfu!

 

Höfundur er félagi í Neytendasamtökunum.




Skoðun

Sjá meira


×