Skoðun

Hvað má fá fyrir rúmar 200 krónur?

Gylfi Magnússon skrifar
Undanfarnar vikur hefur það orðið vinsæll samkvæmisleikur að reyna að reikna út hve margar krónur meðalmáltíð kostar að mati höfunda fjárlagafrumvarpsins og hvað kaupa má fyrir þá upphæð. Þótt slíkir talnaleikir geti haft visst skemmtigildi mega þeir ekki verða til þess að draga athyglina frá aðalatriði málsins. Hér er verið að takast á um grundvallaratriði í uppbyggingu skattkerfisins, hvernig byrðunum er skipt milli þjóðfélagshópa.

Hvernig svo sem menn vilja svara þeirri spurningu ættu allir að geta verið sammála um að svarið verður að byggja á réttum forsendum. Það er því miður ekki staðan nú. Það sást m.a. þegar fjárlögin voru kynnt með dæmi um fjögurra manna fjölskyldu sem notar að því er virðist 2.475 krónur á dag í matvæli og drykkjarföng. Það gerir rúmar 200 krónur á máltíð á mann. Það er fráleit forsenda. Þótt kannski megi einhvers staðar finna slíka fjölskyldu er hún ekki dæmigerð. Dæmið gefur mjög ranga mynd af áhrifum þessarar skattahækkunar.

Jafnframt hefur því ítrekað verið haldið fram í umræðunni um hækkun virðisaukaskatts á matvæli að hún kom nokkuð jafnt niður á hinum ýmsu tekjuhópum. Þeir verji sem sagt allir svipuðu hlutfalli af tekjum sínum í matvæli og drykkjarföng. Það er rangt. Heilbrigð skynsemi ein og sér ætti að duga til að hafna svo fjarstæðukenndri fullyrðingu. Dugi það ekki til eru hagtölur mjög skýrar. Fólk með lágar tekjur kaupir ódýrari mat en þeir sem eru með hæstar tekjur en þeir tekjulægri verja mun hærri hluta ráðstöfunartekna sinna í slíkar nauðsynjar.

Meiri ójöfnuður

Hagstofan birtir aðgengilegar tölur um þetta sem byggja á neyslukönnunum. M.a. má sjá tölur um neyslu þar sem þjóðinni er skipt í fjóra hluta eftir tekjum. Árið 2012 voru útgjöld vegna kaupa á matvælum og drykkjarföngum hjá þeim Íslendingum sem hafa lægstar tekjur nær fjórðungi hærra hlutfall af öllum útgjöldum en hjá þeim sem er með hæstar tekjur. Sem hlutfall af tekjum var munurinn enn meiri. Þeir tekjulægstu notuðu nær helmingi hærra hlutfall tekna sinna til kaupa á matvælum og drykkjarföngum en þeir tekjuhæstu. Þess vegna þýðir aukin skattlagning matvæla meiri ójöfnuð í samfélaginu að öðru jöfnu.

Lækkanir á gjöldum á aðrar vörur sem eiga að koma á móti duga þeim tekjulægstu skammt, af svipuðum ástæðum. Þær nýtast best þeim sem eru með háar tekjur en síður þeim sem eru með lágar tekjur. Þannig eru t.d. útgjöld vegna kaupa raftækja, sem eiga að lækka, meira en helmingi hærra hlutfall heildarútgjalda hjá tekjuhæsta hópnum en þeim tekjulægsta.

Vilji menn nota ríkisfjármálin til að draga úr misskiptingu í samfélaginu er það auðvitað hægt. Það er hægt að gera með lækkun gjalda á nauðsynjavörur. Aðrar aðgerðir til tekjujöfnunar gætu jafnvel verið enn skilvirkari. T.d. hækkun persónufrádráttar í tekjuskattskerfinu, barnabóta, ellilífeyris eða örorkubóta. Hækkun skatta á mat hefur þveröfug áhrif.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×