Skoðun

Hvað er málið? Hvað eru sveitarstjórnarmenn að hugsa?

Særún Ármannsdóttir skrifar
Stjórnendur í leikskólum hafa verið samningslausir í 7 mánuði, síðan 31. janúar sl. Satt að segja trúði ég ekki öðru en að samningar tækjust fljótt eftir að FL náði samningum um miðjan júní – en svo fóru bara allir í sumarfrí! Hvers konar framkoma er þetta við okkur? Hvaða stjórnandi sættir sig við að vera með lægri laun en undirmenn hans en það þurfum við aðstoðarleikskólastjórar að þola!!!

Í flestum tilvikum fóru deildarstjórar fram úr aðstoðarleikskólastjórum í samningunum í sumar og það er óþolandi staðreynd. Ég er sjálf – eftir 22 ára starf – með 417.556 kr. fyrir fullt starf sem aðstoðarleikskólastjóri. Ég er staðgengill leikskólastjóra, vinn að stjórnun leikskólans og tek þátt í öllu starfi hans. Ég ber ábyrgð á rekstri leikskólans, ber ábyrgð á faglegu starfi og er í  samskiptum við alla starfsmenn, börn og foreldra á hverjum degi. Ég þarf að stökkva til þegar gestir eða starfsmenn þurfa þjónustu eða aðstoð. Ég skrifa skýrslur, áætlanir og bréf. Ég þarf að fylgja eftir erfiðum barnaverndarmálum, ég uppfæri heimasíðu, er matráðnum innan handar um matseðlagerð og innkaup. Ég hugga börn, ég fer út eða borða inni á deild ef vantar starfsfólk og svo ótal margt fleira sem ekki er hægt að telja upp hér.  Eitt er að minnsta kosti víst: ég veit aldrei að morgni hvernig dagurinn verður.

Ef ég væri óbreyttur leikskólakennari inni á deild fengi ég 430.830 kr. og ef ég tæki að mér deildarstjórn færu launin mín upp í 454.530 kr. Mismunurinn er 36.974 kr. á mánuði  ... hvaða bankastjóri myndi sætta sig við sambærilegan mun!!!

Frábært fyrir leikskólakennara að ná góðum samningum en að sjálfsögðu þurfa stjórnendur að fylgja með. Við erum samfélaginu svo mikilvæg stétt að við megum ekki fara í verkfall en samt verðskuldum við ekki nýjan kjarasamning um leið og undirmenn okkar. Ég krefst þess að sveitarfélögin gangi strax til samninga, okkar nefnd bíður eftir lokafundinum  ...  og samningurinn þarf að gilda frá 31. janúar. Annað geta leikskólastjórnendur ekki sætt sig við.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×