Fastir pennar

Hvað ef?

Logi Bergmann skrifar
Hvað ef Aron Einar hefði komist að þeirri rökréttu niðurstöðu að hann ætti miklu meiri möguleika á að keppa á stórmóti fyrir Íslands hönd ef hann héldi áfram að æfa handbolta í staðinn fyrir fótbolta?

Hvað ef Eiður Smári hefði ekki þennan viljastyrk og hefði bara endað ferilinn, eftir slæmt fótbrot, sem feitabolla í KR? Hvað ef Gylfi Sigurðsson hefði verið eðlilegur unglingur og hugsað bara um stelpur í staðinn fyrir fótbolta? Hvað ef enginn hefði fengið þá fáránlegu hugmynd að bjóða Lars Lagerbäck að taka við íslenska landsliðinu?

Hvað ef, er það sem gerir fótbolta svona ótrúlega skemmtilegan og dramatískan og spennandi og ósanngjarnan.

Fótbolti er íþrótt hetjanna og skúrkanna. Ronaldo fór frá því að vera besti fótboltamaður í heimi í að vera hallærislegur lúser. Tapsár frekja. Öll þjóðin sameinaðist í andúð á honum. Ef Portúgalar hefðu unnið hefði einhver, einhverstaðar á landinu, staðið fyrir CR7 nærbuxnabrennu. Og það hefði bara þótt eðlilegt.

Hetjustund í París

Hetjusögurnar eru svo fallegar. Þegar Grikkir og Danir urðu Evrópumeistarar. Leicester meistarar á Englandi. Þegar Færeyingar unnu Austurríkismenn. Senegalar unnu Frakka. Þegar Kamerún vann Argentínu. Sigurinn í París fer í flokk þessara leikja.

Fótbolti er ópíum fólks um allan heim. Hjá milljónum manna hefur lífið gengið útá að sjá liðið sitt spila um helgi. Standa með því í gegnum súrt og sætt. Teygja sig í bjórinn í leikslok og segja stoltur að maður sé að minnsta kosti jafn þreyttur og þeir sem spiluðu.

Síðustu vikur hafa verið ótrúlegar hjá íslensku þjóðinni. Óvinir faðmast og deilur hjaðna. Hverjum er ekki sama hver verður forseti? Bara ef við náum aðeins lengra.

En sentimetrarnir og sekúndubrotin geta fallið hvorumegin sem er. Austurríkismenn velta fyrir sér: Hvað ef þessi íslenski markmaður hefði ekki verið svona snöggur að klóra sig útúr vandræðunum og pota boltanum frá Arnautovic?

Hvað ef vítið hefði bara farið hinumegin við stöngina? Hvað ef þessi Árnason hefði ekki verið endalaust fyrir?

Öll sagan er eitt stórt hvað ef. Hvað ef dómarinn hefði bara dæmt hendi á Maradona? Hvað ef Zidane hefði ekki sturlast í miðjum leik og stangað Materazzi? Hvað ef dómarinn hefði séð að boltinn fór inn hjá Þjóðverjum á Wembley?

Í göllunum er fegurðin. Fótbolti er ekki eins og jafna í stærðfræði. Ekkert dæmi getur skilað þeirri niðurstöðu að þrjúhundruð þúsund manna þjóð frá rokrassgati útí ballarhafi sé komið í hóp sextán bestu liða álfunnar í vinsælustu íþrótt í heimi.

Íslenska víkingablóðið

Á svona dögum finnast manni ræður útrásarinnar um eðli Íslendinga allt að því eðlilegar. Víkingablóðið og eðlislægt frumkvæði allt hitt. Það kristallast allt í myndinni af Birki Bjarnasyni hlaupa upp allan völlinn í síðustu sókn leiksins. Algjörlega þrotinn af kröftum til að leggja sitt af mörkum í einhverjum ótrúlegasta sigri íslenskrar íþróttasögu. Í þeim tilgangi að koma varanlegri gæsahúð á nánast hvert mannsbarn á Íslandi og gera Gumma Ben loksins heimsfrægan. Á Youtube.

Við höfum heillast af liðsheildinni og hvernig strákunum hefur tekist að halda sig á jörðinni en samt verið sannfærðir um að þeir eigi fullt erindi á meðal þeirra bestu. Í þeim er hin fullkomna blanda hógværðar og sjálfstrausts.

Draumurinn gæti tekið enda, nokkurn veginn fyrirvaralaust en við kjósum að hugsa ekki um það. Ekkert tap getur tekið frá okkur gleðina sem þetta lið hefur fært okkur síðustu daga. Stoltið sem það hefur fyllt okkur og spennuna sem það hefur skilað heim í stofu til okkar. Og öll tækifærin sem það hefur fært okkur til að drekka bjór í miðri viku.

Á mánudagskvöld ætla ég að vera í Nice, vonandi í stórum hópi bláklæddra. Upplifa sjálfur stemninguna sem ég hef séð á vellinum. Halda niðri í mér andanum, loka augunum og hugsa: Hvað ef…?

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.






×