Fótbolti

Hvað á að standa á rútu íslensku strákanna á EM í Frakklandi?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/KSÍ
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er á leiðinni á Evrópumótið í Frakklandi í sumar og Knattspyrnusamband Ísland segir frá því á heimasíðu sinni að leit standi yfir að slagorði íslenska liðsins fyrir EM.

Ísland er í riðli með Portúgal, Austurríki og Ungverjalandi á móti í Frakklandi og fyrsti leikur strákanna er á móti Portúgal 14. júní.

Slagorðið sem verður fyrir valinu verður sett á hliðina á rútu íslenska liðsins sem mun flytja íslenska hópinn á milli staða í Frakklandi en íslenska liðið hefur heimastöð í borginni Annecy rétt hjá landamærum Frakklands og Sviss.

UEFA og Hyundai eru með skemmtilegan leik sem snýst um að búa til öflugt slagorð fyrir þjóðirnar sem leika á EM og mun slagorðið sem er valið frá hverri þjóð vera prentað á rútu viðkomandi liðs.

Þátttökufrestur er til 1. mars og því borgar sig að leggja hausinn í bleyti og koma með flott slagorð fyrr en síðar.

Það er hægt að smella hérna til að skoða reglurnar og hvernig það á að skila inn slagorðinu en sá sem verður hlutskarpastur gæti unnið miða á EM í boði Hyundai ásamt öðrum gjöfum.






Tengdar fréttir

Kolbeinn hefur tekið verkjatöflur fyrir hvern einasta leik

Kolbeinn Sigþórsson er feginn því að geta sagt skilið við erfitt ár 2015 þar sem meiðsli settu of stórt strik í reikninginn eftir félagaskipti hans til Nantes. Hann ræðir við Fréttablaðið um mótlætið, markaleysið og gagnrýnina sem hann fékk frá eigin þjálfara.

Englendingar fá miklu færri miða á EM en Íslendingar

Englendingar eru að fá mun færri miða á leiki Evrópumótsins en Íslendingar og þeir hneykslast mikið á því. Enskur blaðamaður sló því upp í Daily Star í gær að litla Ísland sé að fá átta þúsund fleiri miða en stórveldið England.

Heimir: Eru að tefla fram reynslumiklu liði annað kvöld

Heimir Hallgrímsson, annar þjálfari íslenska landsliðsins, er þakklátur fyrir tækifærið sem leikur morgundagsins gefur þjálfurunum til þess að skoða leikmenn sem hafa verið utan hóps til þessa.

Eins og ef Lars Lagerbäck ætlaði að velja Aron Jóhannsson

Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, hefur ekkert verið mikið að koma sér undan því að tala um þá leikmenn sem koma til greina í EM-hópinn fyrir Evrópumótið í sumar en hann var kannski aðeins of fljótur á sér í sjónvarpsviðtali á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×