Innlent

Húsnæðisvandi ýtir konum ekki heim til ofbeldismanna

Sveinn Arnarsson skrifar
Húsnæðismarkaðurinn reynist mörgum erfiður.
Húsnæðismarkaðurinn reynist mörgum erfiður. vísir/vilhelm
Dæmi eru um að um og yfir þrjátíu einstaklingar séu í Kvennaathvarfinu á sama tíma vegna húsnæðisvanda í borginni. Dvalartími einstaklinga lengist ár frá ári. Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, segir það hins vegar ekki al­slæmar fréttir.

„Við erum að sjá að dvalartími er að lengjast og fleiri einstaklingar sækja til okkar í þjónustu. Við vitum að húsnæðismarkaður á höfuðborgarsvæðinu er mjög erfiður og því sjáum við lengri dvalartíma hjá okkur,“ segir Sigþrúður.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins
„Það sem hins vegar skiptir miklu máli er að æ færri konur fara aftur heim til ofbeldismanns. Við töldum og óttuðumst kannski að konur myndu þá fara frekar heim til ofbeldismanns. Það sem er að raungerast núna er að konur eru þá að dvelja lengur hjá okkur í þeirri von að komast í nýtt húsnæði. Það er í sjálfu sér gleðiefni.“

Á árinu 2016 voru að meðaltali níu börn í athvarfinu á hverjum tíma og meðaldvalartími þeirra um 41 dagur. 

Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra sagðist í viðtali við Fréttablaðið í lok janúar ætla að skoða mál skjólstæðinga Kvennaathvarfsins í samráði við athvarfið og Reykjavíkurborg.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×