Viðskipti innlent

Húsnæðiskostnaðurinn vegur þyngst

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hækkanir á leigumarkaði húsnæðis frá 2010 koma verst niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar.
Hækkanir á leigumarkaði húsnæðis frá 2010 koma verst niður á þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Fréttablaðið/Vilhelm
Þegar fólki er skipt upp í fjóra hópa eftir tekjum og horft til áhrifa verðhækkana á ólíka hópa kemur í ljós að hlutfallslega hefur verðbólga lagst þyngst á þá sem lægstar hafa tekjur.

Þetta kemur fram í grein Viðars Ingasonar, hagfræðings VR, í efnahagsritinu Vísbendingu.

Viðar segir að mánaðarleg birting Hagstofu Íslands á verðbólguvísitölunni (vísitölu neysluverðs) gefi til kynna hver hækkun verðlags sé gagnvart meðalfjölskyldunni.

„Fjölmargar fjölskyldur standa þó frammi fyrir útgjaldaþróun sem er nokkuð ólík þeirri sem Hagstofan birtir, af þeirri einföldu ástæðu að heimili hafa ólík neyslumynstur,“ segir hann í grein sinni.

Viðar tínir til sjö stærstu útgjaldaliði heimila og hvernig þeir skiptast innan hvers tekjufjórðungs.

Þannig vega útgjöld til eigin húsnæðis þyngra hjá fjórða og tekjuhæsta flokknum en þeim fyrsta og tekjulægsta, þar sem greidd húsaleiga er hærra hlutfall. Þá er horft er til fjölda fullorðinna í heimili og fjölskyldutekna.

Því vegur þungt í niðurstöðunni að frá ársbyrjun 2010 hefur leiguverð hækkað um 30 prósent á meðan nafnverð húsnæðis hefur hækkað um 18 prósent miðað við september á þessu ári. 

„Húsnæðisliðurinn hefur átt mestan þátt í því að verðlag hefur þróast með ólíkum hætti gagnvart mismunandi tekjuhópum síðustu árin,“ segir Viðar, en frá ársbyrjun 2010 hefur verðlag hækkað að meðaltali um 21,4 prósent gagnvart tekjulægsta fjórðungnum, en um 16 prósent gagnvart þeim tekjuhæsta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×