Innlent

Husky-hundur drap sex lömb

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eigendur hundsins eru nú að athuga með tryggingar svo hægt sé að bæta tjónið sem hundurinn olli.
Eigendur hundsins eru nú að athuga með tryggingar svo hægt sé að bæta tjónið sem hundurinn olli. Vísir/Getty/Vilhelm
Husky-hundur, sem slapp frá ferðamönnum og gekk laus í sex daga á Snæfellsnesi, drap sex lömb og særði eitt í liðinni viku. RÚV greindi fyrst frá málinu.

Þóra Sif Kópsdóttir, bóndi á Ystu-Görðum, átti lömbin. Hún segir í samtali við Vísi að hundurinn hafi sloppið frá eigendum sínum á sunnudeginum fyrir viku en enginn af íbúum í sveitinni hafi haft hugmynd um að hundur gengi laus á svæðinu.

„Við sjáum fyrsta lambið á miðvikudeginum. Það var úti í miðjum læk svo við komumst ekki til að ná í það. Þar af leiðandi vissum við ekki hvernig það hafði dáið. Á miðvikudeginum sjáum við svo reyndar auglýsingu á Facebook þar sem lýst er eftir hund sem hafði sloppið.“

Þóra segir að á föstudeginum hafi þau síðan komið á auga á blóðugt lamb úti í læk. Þá hafi þau vitað að eitthvað mikið væri að og hafið leit að hundinum. Hann fannst svo á laugardeginum þegar verið var að smala. Hundurinn var aflífaður á staðnum.

Öll lömbin sem fundust voru úti í læk. Þóra segir að þegar lömb þurfi að verja sig og séu uppgefin þá leiti þau í vatn.

Aðspurð segir hún að eigendur hundsins séu nú að athuga með tryggingar svo hægt sé að bæta tjónið sem hundurinn olli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×