Innlent

Húsið sem klauf Hólminn: Meirihlutinn segir atlögu gerða að hagsmunum Stykkishólms

Birgir Olgeirsson skrifar
Söluferlið á fasteign Stykkishólmsbæjar, Hafnargötu 7 sem hýsir Amtsbókasafnið, hefur verið mikið hitamál í Hólminum undanfarið. Segist meirihluti bæjarstjórnar, þar á meðal Sturla Böðvarsson bæjarstjóri, harma þá atlögu sem gerð er að hagsmunum bæjarins.
Söluferlið á fasteign Stykkishólmsbæjar, Hafnargötu 7 sem hýsir Amtsbókasafnið, hefur verið mikið hitamál í Hólminum undanfarið. Segist meirihluti bæjarstjórnar, þar á meðal Sturla Böðvarsson bæjarstjóri, harma þá atlögu sem gerð er að hagsmunum bæjarins. Vísir/Götukort Ja.is/Stefán
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar ákvað að samþykkja tilboð Marz-sjávarafurða ehf. í fasteign sveitarfélagsins að Hafnargötu 7 í gær. Söluferlið hefur verið til mikillar umræðu í Hólminum en húsnæðið hefur hýst Amtsbókasafnið sem er tæplega 170 ára gamalt. Málið er afar umdeilt og létu fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn bóka í gær að þeir hörmuðu þá atlögu sem gerð hefur verið að hagsmunum bæjarfélagsins.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hafði samþykkt að ráðast í sölu á fasteignum í eigu bæjarins og átti að nýta fjármuni af sölunni til að ráðast í viðbyggingu við grunnskólann og sameina þar undir skóla og söfn bæjarins en Hafnargata 7 er ein af þessum fasteignum.

Tilboðsfrestur í fasteignina að Hafnargötu 7 var til 1. desember síðastliðins en var framlengdur til 1. janúar. Aftur var fresturinn framlengdur til 16. janúar og höfðu þá borist fjögur tilboð. Hæsta tilboðið var frá Gistiveri ehf. en næst hæsta boðið átti Bókaverslun Breiðafjarðar.

Tilboðin þóttu of lág og var því ákveðið að veita frest fram að 15. febrúar. Gistiver bakkaði út úr því ferli og hafði þá borist annað tilboð frá Marz sjávarafurðum ehf. Eftir mikla reikistefnu um hvort fleiri en Gistiver hefðu haft tilboðsrétt fram að fimmtánda febrúar var ákveðið að hafna öllum tilboðum og setja málið í hendur Péturs Kristinsson, lögmanns hjá málflutningsstofu Snæfellsness ehf. og Fasteignasölu Snæfellsness.

Frá Stykkishólmi. Vísir/Vilhelm
Lengd leigutíma réði úrslitum

Bókaverzlun Breiðafjarðar sendi í kjölfarið inn tvö tilboð. Annað hljóðaði upp á 46,5 milljónir króna og að Stykkishólmsbær myndi leigja húsnæðið af verzluninni í 11 mánuði fram að afhendingartímanum. Fasteignasala Snæfellsnes áætlar að leiguverð hússins geti verið 1.500 krónur fyrir hvern fermetra á mánuði. Miðað við að húsið að Hafnargötu 7 sé 270 fermetrar er leiguverðið 405 þúsund krónur á mánuði.

Það þýðir að leigan í 11 mánuði er metin á 4 milljónir og 455 þúsund krónur. Hún bætist þar með við tilboðið upp á 46,5 milljónir króna og úr verður tilboð upp á 50,9 milljónir króna.

Tilboð 2 frá Bókaverzlun Breiðafjarðar hljóðaði upp á 50 milljónir króna og leiga í sex mánuði upp á 2 milljónir og 430 þúsund krónur. Samtals 52,4 milljónir króna.

Tilboð frá Marz-sjávarafurðum hljóðaði upp á 48 milljónir króna, leiga á húsi í 13 mánuði metin á 5,2 milljónir króna samtals gerir það því tilboð upp á 53,2 milljónir króna. Til hliðsjónar var höfð greinargerð sem unnin var af endurskoðunarfyrirtækinu KPMG sem mat það svo að taka ætti tilboði Marz-sjávarafurða og samþykkti bæjarráð það. Því liggur fyrir að munur tilboðanna liggur í afhendingartímanum en þrettán mánaða afhendingartími gerði tilboð Marz-sjávarafurða að hærra tilboði en það sem Bókaverzlun Breiðafjarðar hafði lagt fram en þar var afhendingartíminn upp á ellefu mánuði.

Málið fór svo fyrir bæjarstjórn í gær þar sem það var samþykkt.

Ætla að rífa húsið

Forsvarsmenn Bókaverzlunar Breiðfjarðar höfðu hug á að nýta húsnæðið að Hafnargötu 7 undir rekstur bókasafns, Bókaverzlunar Breiðafjarðar með bókakaffi og jafnvel upplýsingamiðstöð.

Margir í Stykkishólmi eru þeirrar skoðunar að í húsinu eigi að vera rekin einhverskonar þjónusta í samræmi við deiliskipulag en Marz-sjávarafurðir hafa í huga að rífa núverandi hús sem stendur á lóðinni og er það mat fyrirtækisins að byggingin hæfi ekki götumynd gamla miðbæjarkjarnans og stangist á við stefnu undanfarinna ára um að varðveita byggingararfinn.

„Það sem markar Stykkishólmi sérstöðu eru gömlu fallegu húsin okkar í fallegu umhverfi. Við teljum mikilvægt að halda áfram að hlúa að þessu,“ segir í bréfi Marz til bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar.

Fyrirtækið ætlar að reisa tvö hús á lóðinni þar sem annað húsið yrði íbúðarhús sem yrði selt að byggingu lokinni. Húsið á norðurhluta lóðarinnar yrði byggt í stíl gamla Hjaltalínshússins og er ætlunin að hýsa þar fjölbreytta starfsemi, svo sem verslunar- og/eða skrifstofuhúsnæði, kaffihús og jafnvel að hluta til íbúðarhús sem yrði leigt út eða selt.

Segir mistök að taka ekki tilboði Bókaverzlunarinnar

Lárus Á. Hannesson, fulltrúi L-lista félagshyggjufólks í bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar, lét bóka á bæjarstjórnarfundi í gær að hann telji það mistök að verða ekki við ósk fulltrúa Bókaverzlunar Breiðafjarðar um viðræður um samstarf og þá spurði hann hvað það muni hafa í för mér sér að breyta skipulagi á reitnum sem húsið að Hafnargötu 7 stendur á úr atvinnustarfsemi í íbúðabyggð en margir hafa bent á að tekjur sveitarfélagsins muni minnka við það.

Bæjarfulltrúar H-lista framfarasinnaðra Hólmara, létu bók að þeir harmi þá atlögu sem gerð er að hagsmunum bæjarfélagsins með því að reyna að rjúfa þá samstöðu sem hefur ríkt um þau áform að byggja við grunnskólahúsið í þeim tilgangi að hýsa bæði skólana og bókasöfnin.

Hafa áhyggjur af framtíð bókasafnsins

Margir hafa einmitt áhyggjur af framtíð bókasafnsins. Bæjarfulltrúar höfðu til að mynda skoðað möguleika á makaskiptum við Marz-sjávarafurðir en í því fólst að fyrirtækið og Stykkishólmsbær myndu skiptast á húsum. Marz-sjávarafurðir hefðu þá látið af hendi trésmiðju og fengju í staðinn húsið að Hafnargötu 7. Stóð þá til að Amtsbókasafnið og önnur þjónusta bæjarins yrði hýst í þessari trésmiðju. Eftir að bæjarfulltrúar höfðu skoðað húsnæðið og ljóst að viðhaldskostnaðurinn yrði mikill var ákveðið að falla frá því tilboði.

Bæjarfulltrúar H-listans létu bóka á fundinum í gær að það sé staðfastur ásetningur þeirra að Amtsbókasafnið verði flutt í nýtt húsnæði á 170 ára afmæli safnsins árið 2017.

Ætla ekki að einkavæða bókasafnið

Þá bókuðu bæjarfulltrúar H-listans að það væri ekki vilji meirihluta bæjarstjórnar að fela einkaaðilum rekstur Amtsbókasafnsins eða að einkavæða það.

„Ef fela ætti öðrum en lögboðnum rekstraraðila, að reka Amtsbókasafnið verður slík ákvörðun að fylgja reglum um opinbert útbið og væntanlega á hinu Evrópska efnahagssvæði. Rekstur slíkrar stofnunar sem Amtsbókasafnið er verður ekki færður einkaaðilum án heimilda eða án þess að fleiri en einum gefist færi á að bjóða í reksturinn. “

Vanhæfi bæjarfulltrúa rætt

Þá hefur verið bent á mögulegt vanhæfi bæjarfulltrúa H-listans, Katrínar Gísladóttur, til að fjalla um söluferlið fyrir hönd bæjarins því hún er gift lögmanninum Pétri Kristinssyni sem annaðist söluferlið fyrir hönd bæjarins.

Bæjarfulltrúar H-listans létu bóka á fundinum í gær að það hefði verið samhljóða ákvörðun bæjarstjórnar að fela Pétri að annast söluferlið.

„Hagsmunir hans eru því á engan hátt tengdir því hvaða tilboði er tekið. Lögfræðingur Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur lagt mat á aðstæður og telur ekki vera um að ræða vanhæfi einstakra bæjarfulltrúa til þess að taka afstöðu til þess hvort taka eigi hæsta tilboði í eignina Hafnargötu 7.“

Samþykkt var að lokum að bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, Sturla Böðvarsson, myndi ganga til samninga við Marz-sjávarafurðir vegna sölu á Hafnargötu 7. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×