Innlent

Húsgögn keypt fyrir tugi milljóna króna

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Þessir stólar reyndust vera falsaðir og þurfti að farga þeim.
Þessir stólar reyndust vera falsaðir og þurfti að farga þeim.
Kostnaður vegna framkvæmda í Ráðhúsinu frá 2012 er tæpar 170 milljónir. Frá 2012 hefur verið unnið að því að breyta innréttingum í Ráðhúsinu til að mæta nýjum þörfum en engar framkvæmdir voru í húsinu frá 2004.

Alls hefur Reykjavíkurborg eytt um 200 milljónum króna í framkvæmdir við Ráðhúsið frá 2001. Tæpar 40 milljónir hafa farið í húsasmíði, um 28,3 milljónir í húsgögn og 15,6 milljónir í verkfræðinga og tæknifræðinga. Aðrir einstakir kostnaðarliðir ná ekki tíu milljónum. Á þessu ári hefur borgin eytt 18 milljónum í húsasmíði og 12 milljónum í húsgögn. Þetta kom fram á borgarráðsfundi á fimmtudag. Þar kemur fram að húsið hafi upphaflega verið innréttað sem einkaskrifstofur og afgreiðslusvæði með um 60 starfsstöðvar.

Aðeins var eitt fundarherbergi í skrifstofuhlutanum með mjög takmörkuðum aðgangi. Eftir breytingarnar eru nú 110 starfsstöðvar í skrifstofuhlutanum, auk 12 nýrra fundarherbergja fyrir 10-12 manns. Verði af áætluðum framkvæmdum hefur nýting skrifstofuhúsnæðisins tvöfaldast frá því sem upphaflega var. Frá því að framkvæmdir hófust árið 2012 er áætlað að starfsmönnum hafi fjölgað um 35-40.

Dæmi um aukna nýtingu húsnæðis er að 24 starfsmenn menningar- og ferðamálasviðs fluttu í skrifstofuhúsnæðið á þessu ári, sem sparaði borginni um 24 milljónir í leigu á ári, og 16 starfsmenn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar eru nú í rými þar sem fyrir breytingar unnu sjö manns.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×