Innlent

Húsaleigubætur verða hækkaðar

Heimir Már Pétursson skrifar
Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. vísir/pjetur
Tekjur ríkissjóðs af lægra þrepi virðisaukaskattsins lækka um tvo milljarða við að hætta við að hækka skattinn í tólf prósent en setja hann þess í stað í ellefu prósent. Meðal annarra aðgerða sem gripið verður til er að hækka húsaleigubætur.

Töluverðar breytingar verða á fjárlagafrumvarpinu og tekjufrumvörpum þess samkvæmt nýjum tillögum stjórnarflokkanna. Meðal annars verður virðisaukaskattur í neðra þrepi hækkaður úr sjö prósentum í ellefu en ekki tólf eins og áður var fyrirhugað.

„Í fjárhæðum eru það rétt rúmlega tveir milljarðar sem við erum að gefa eftir af skatttekjum með því að fara í 11 prósent þrepið. En við erum að halda okkur við þessa stóru kerfisbreytingu sem er að draga úr muninum á milli þrepanna. Draga úr þessari gjá sem er á milli þrepanna,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Reikna megi með að verðlag lækki um 0,4 prósent með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þá verður meira fé sett í heilbrigðis- og menntakerfið en áður var ráðgert og meira fer í niðurgreiðslu lyfja.

Skattabreytingarnar og mótvægisaðgerðirnar verða kynntar í fjárlaganefnd á morgun en þær voru að hluta til ræddar í efnahags- og viðskiptanefnd í dag. Framsóknarmenn hafa þrýst á um mótvægisaðgerðir vegna hækkunar skatts á matvæli. Bjarni segir málinu alltaf hafa verið stillt þannig upp að allir nytu góðs af því.

„Þannig að fyrir mér hafa frekari ráðstafanir aldrei í eðli sínu átt að vera neinar mótvægisaðgerðir vegna þess að heildaráhrifin eru jákvæð. Það hefur hins vegar verið skoðað að hafa einhverjar hliðarráðstafanir eða viðbótarráðstafanir,“ segir Bjarni

Minni hækkun á lægra virðisaukaþrepinu sé slík ráðstöfun. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar verða húsaleigubætur einnig hækkaðar til að koma til móts við þá tekjulægstu sem njóta t.d. ekki vaxta- og barnabóta.

„Þannig að það er alveg óumdeilanlegt að heildarkerfisbreytingin er til einföldunar með því að við tökum vörugjöld af um 800 vöruflokkum. Við drögum úr muninum á milli þrepanna. Það er staðið við það meginmarkmið sem er gott fyrir virðisaukaskattskerfið og dregur úr undanskotum og röngum hvötum,“ segir Bjarni Benediktsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×