Lífið

Hús J.D. Salinger til sölu

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Salinger
Salinger MYND/PLANETVIDEO.COM.AU
Hús bandaríska rithöfundarins J.D. Salingers er nú til sölu fyrir litlar 80 milljónir eða 679.000 Bandaríkjadali. Salinger er hvað þekktastur fyrir að hafa skrifað bókina Bjargvætturinn í grasinu, eða The Catcher in the Rye.

Fyrrum hús Salingers, sem lést árið 2010, er staðsett á 12 ekru landareign í Cornish í New Hampshire-fylki Bandaríkjanna. Í því eru fjögur svefnherbergi og fjögur baðherbergi. Salinger flutti í húsið á sjötta áratugnum eftir að hafa skrifað Bjargvættinn og skilið við fyrstu eiginkonu sína.

Salinger bjó í Cornish þar til hann lést en hann seldi þó húsið á níunda áratugnum. Fram kemur í frétt Valley News að íbúar bæjarins hafi oft hjálpað Salinger við að reka á brott aðdáendur sem leituðu að húsinu hans, en Salinger var illræmdur fyrir að vera lokaður og lítið fyrir athyglina.

Samkvæmt New York Times er möguleiki á því að óútgefnar bækur eftir rithöfundinn verði loksins gefnar út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×