Skoðun

Húrra fyrir sveitarfélögum sem hafa gert grunnmenntun gjaldfrjálsa í raun!

Erna Reynisdóttir skrifar
Barnaheill – Save the Children á Íslandi – hófu vitundarvakningu árið 2015 um kostnað foreldra grunnskólabarna við innkaup á ritföngum og fleiru sem þarf til skólagöngu. Samtökin skoruðu á yfirvöld að afnema þessa kostnaðarþátttöku og virða þar með réttindi barna til gjaldfrjálsrar grunnmenntunar eins og kveðið er á um í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Áskorunin náði annars vegar til sveitarfélaga þar sem hvatt var til þess að skólar hættu að gefa út svokallaða innkaupalista og hins vegar til stjórnvalda um að afnema leyfi til slíkrar gjaldtöku með breytingu á grunnskólalögum.

Barnaheill kölluðu almenning til liðs við sig á síðasta ári með undirskriftasöfnun um áskorun á stjórnvöld. Það var því mikið gleðiefni þegar fréttir fóru að berast frá hverju sveitarfélaginu á fætur öðru sem tóku áskoruninni og tilkynnti um afnám gjaldtöku fyrir veturinn 2017–2018. Í lok árs 2017 bárust svo fréttir af því að tvö stærstu sveitarfélög landsins, Kópavogur og Reykjavík, hefðu samþykkt að afnema kostnaðarþátttöku á skólaárinu 2018–2019. Var það mikið framfaraskref í átt að því að öll börn á Íslandi nytu jafnræðis í þessum efnum.

Samkvæmt nýlegri samantekt Velferðarvaktarinnar munu um 94% barna njóta gjaldfrjálsar grunnmenntunar frá og með haustinu 2018. Það miðast þó við að öll sveitarfélög sem höfðu afnumið kostnaðarþátttöku fyrir yfirstandandi skólaár haldi sömu stefnu næsta haust. Ekki er hægt annað en að gleðjast yfir þeim árangri en samt sem áður eru þá um 6% barna sem njóta ekki þessara réttinda og því þarf að breyta.

Ég vil þakka þeim sveitarstjórnarkonum og -körlum sem hafa gert grunnmenntun gjaldfrjálsa í raun í sínu sveitarfélagi. Húrra fyrir ykkur! Um leið skora ég á fulltrúa þeirra örfáu sveitarfélaga sem ekki hafa stigið þetta skref til fulls að hafa hugrekki til þess áður en næsta skólaár hefst. En umfram allt vil ég ítreka áskorun Barnaheilla og beina því til nýrra alþingismanna að breyta 31. grein grunnskólalaga á þann veg að tekið sé fyrir þessa kostnaðarþátttöku heimilanna á skólagögnum. Einungis þannig er hægt að tryggja til framtíðar jöfnuð milli allra barna varðandi þennan kostnað án tillits til búsetu eða í hvaða skóla þau ganga.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×