Innlent

Hurðir úr Eden í Rósagarðinn

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Eden brann 2011.
Eden brann 2011. vísir/pjetur
Útihurðirnar sem leiddu gesti og gangandi inn í verslunar og veitingastaðinn Eden í Hveragerði á sínum tíma og sluppu óskaddaðar að utanverðu þegar staðurinn brann í júlí 2011 verða settar upp í Rósagarðinum, nýopnuðu veitingahúsi og rósaræktunarstöð.

Edenhurðirnar eru skornar út af Erlendi Magnússyni og sýna Adam og Evu í aldingarðinum Eden að því er segir í fundargerð bæjarráðs Hveragerðis. Bærinn fékk hurðirnar að gjöf eftir brunann.

„Bæjarráð samþykkir að hurðirnar verði lánaðar til Rósagarðsins við Breiðumörk enda verði þeim gerður sómi og þær sýndar á áberandi stað til minningar um Eden,“ segir bæjarráðið. Forsvarsmenn Rósagarðsins segjast munu gera hurðunum hátt undir höfði. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×