Erlent

Hundur varð eiganda sínum að bana í Lundúnum

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Hundur af tegundinni Staffordshire bull terrier.
Hundur af tegundinni Staffordshire bull terrier. vísir/getty
Hundur af tegundinni Staffordshire bull terrier réðst á eiganda sinn í norðurhluta Lundúna í síðustu viku með þeim afleiðingum að hann lét lífið.

Tökumenn BBC voru viðstaddir á heimili mannsins þegar atvikið átti sér stað en þeir voru við tökur á heimildarmynd. Hins vegar voru upptökuvélarnar ekki í gangi þegar hundurinn réðst á manninn.

Maðurinn sem lést hét Mario Perivoitos og var 41 árs gamall.

Krufning hefur leitt í ljós að dánarorskök Perivoitos var blóðmissir og áverkar á öndunarvegi.

Hundar af umræddri tegund eru ekki ólöglegir í Bretlandi þótt dæmi séu um að þeir geti verið árásargjarnir. Hundarnir eru afar vinsælir í Bretlandi en samkvæmt könnun sem BBC gerði árið 2015 er tegundin sú þriðja vinsælasta þar í landi. Staffordshire bull terrier hundar eru þó víða bannaðir, til að mynda á Íslandi.

Pit-bull hundar teljast til svokallaðra vígahunda sem eru upprunnir frá Bretlandseyjum og voru áður fyrr aðallega ræktaðir til hundaats og veiða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×