Erlent

Hundruðum drengja rænt og neyddir í hernað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ap
Hundruðum drengja hefur verið rænt í Suður-Súdan á undanförnum vikum. Talið er að þeir verði notaðir í hernað en nú berjast hátt í tólf þúsund börn í borgarastyrjöldinni sem þar ríkir. Þetta fullyrðir Unicef, barnastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem krefst þess að börnunum verði sleppt.

Drengjunum var rænt fyrir um tveimur vikum síðan. Í fyrstu var talið að 89 drengjum hafi verið rænt á þessum slóðum en nú liggur fyrir að þeir eru umtalsvert fleiri. Vígahópur hliðhollur stjórnvöldum er sagður hafa rænt börnunum en stjórnvöld segjast engan þátt hafa tekið í ráninu og hafna öllum ásökunum þess efnis.

Borgarastyrjöldin í Suður-Súdan hefur staðið yfir frá því í desember 2013. Hundruðir þúsunda hafa beðið bana og milljónir eru hjálparþurfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×