Innlent

Hundruð sjúklinga bætast á biðlista vegna verkfalls lækna

Heimir Már Pétursson skrifar
Þórarinn Gíslason yfirlæknir segir áhyggjuefni að fimm til tíu árgangar lækna sem flúðu land séu ekki á leiðinni heim. Þeir ásamt sjúklingum eigi ekki fulltrúa við samningaborðið.
Þórarinn Gíslason yfirlæknir segir áhyggjuefni að fimm til tíu árgangar lækna sem flúðu land séu ekki á leiðinni heim. Þeir ásamt sjúklingum eigi ekki fulltrúa við samningaborðið. vísir/vilhelm
Ef samningar takast ekki við lækna fyrir 11. desember næst komandi þegar boðuðum aðgerðum lýkur,  verður allt að 800 aðgerðum á Landsspítalanum frestað og biðlistar muni lengjast til mikilla muna. Yfirlæknir segir fulltrúa sjúklinga og landflótta lækna ekki sitja við samningaborðið þar sem enginn árangur hefur náðst.

Um 160 lyflæknar á Landsspítalanum og allir lyflæknar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri er í verfalli í dag annan daginn í röð. Aðeins er veitt neyðarþjónusta lyflækna á spítulunum og á Landsspítalanum í Fossvogi eru til að mynda aðeins tveir læknar á vakt. Þórarinn Gíslason lungnasérfræðingur og yfirlæknir er annar þeirra. Hann segir ástandið í heilbrigðiskerfinu ekkert hafa með flokkapólitík að gera.

„Þetta er ekki spurning um einhverja pólitík eða einhvern stjórnmálaflokk. Ég er ekki í neinum stjórnmálaflokki nema þessum flokki þess fólks sem er að vinna hér og er stöðugt að berjast við það að fá að sinna vinnunni sinni og þeim sem eru veikir í landinu,“ segir Þórarinn.

Í fréttum okkar í gær sagði Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir framkvæmdastjóri flæðisviðs Landsspítalans að aðgerðum á biðlista gæti fjölgað um allt að 800 á þeim tíma sem aðgerðir lækna standa, en þeim á að ljúka hinn 11. desember.

„Það er reynt að hafa hér eins mikla starfsemi og mögulegt er þrátt fyrir verkfallsaðgerðirnar. Þetta er auðvitað ákveðin nauðvörn en þó þetta líti ekki á blaðinu út fyrir að vera mikið, þá er þetta að hafa mjög mikil áhrif á starfsemina á slæmum tíma,“ segir Þórarinn.

Engin niðurstaða varð á stuttum saminganefndarfundi með læknum hjá Ríkissátasemjara í gær og annar fundur hefur ekki verið boðaður fyrr en á mánudag þegar aðgerðir lækna hefjast á ný, en hlé verður á aðgerðum þeirra á morgun og um helgina.

Þórarinn segir ómögulegt að geta sér til um hvað þetta ástand muni vara lengi.

„Ekki spyrja mig. Hvað sættir fólk sig við að biðlistar séu langir? Kannski er þetta spurning um stærra dæmi? Hvað getur heilbrigðiskerfið á íslandi verið lengi í þeirri stöðu sem það hefur verið að þróast í undanfarið? Það held ég að sé meginástæða þeirra aðgerða sem Læknafélagið grípur til. Ég þekki engan lækni sem er raunverulegan ánægður með að hafa farið í þessar aðgerðir. Ég þekki heldur engan lækni sem greiddi atkvæði á móti þeim,“ segir Þórarinn.

Við samningaborðið sitji hvorki fulltrúar sjúklinga né þess fjölda lækna sem eins og aðrir landsmenn færðu fórnir eftir efnahagshrunið og misstu jafnvel íbúðir sínar og flúðu land stórskuldugir.

„Og það er það sem við höfum miklar áhyggjur af. Að þessi hópur, um fimm til tíu árgangar íslenskra lækna, er hreint og beint ekkert á leiðinni heim,“ segir Þórarinn Gíslason yfirlæknir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×