Viðskipti innlent

Hundruð milljóna fyrir mæla

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Bjarnason segir enn eftir að ákveða á hvaða verði mælarnir verða keyptir.
Bjarni Bjarnason segir enn eftir að ákveða á hvaða verði mælarnir verða keyptir. fréttablaðið/Anton Brink
Orkuveita Reykjavíkur ætlar að taka á ný við mælum fyrir rafmagn og heitt og kalt vatn hjá viðskiptavinum á þjónustusvæði sínu. Samningur sem gerður hafði verið við Frumherja um slíka þjónustu rennur út 31. maí.

Frumherji á mælana núna og Orkuveitan mun kaupa hluta þeirra af fyrirtækinu. Á þessari stundu liggur kaupverðið ekki fyrir.

„Mælasafnið í heild kostar nokkur hundruð milljónir en hvernig við færum það yfir er bara ekki vitað enn þá,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR. Enn sé verið að semja um það.

Orkuveitan og forverar hennar sáu um mælana til 2001 þegar Frumherji hf. keypti þá í kjölfar útboðs og leigði Orkuveitunni til afnota. Frumherji hefur síðan átt og rekið mælana.

Núgildandi þjónustusamningur Orkuveitunnar og Frumherja er frá 2008. Hann rann út í maí 2014 og var þá framlengdur til eins árs eða út maí 2015. Ekki eru frekari möguleikar á framlengingu í samningnum.

Eignarhald mæla flyst því til Orkuveitunnar, þjónusta verður boðin út að einhverju leyti og eftirlit með mælum verður í höndum óháðs aðila. Verð á rafmagni og vatni á ekki að breytast vegna þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×