Innlent

Hundruð bíða endurhæfingar

Svavar Hávarðsson skrifar
Fjárveitingar hins opinbera gera ráð fyrir að 1.100 manns sé hjálpað á Reykjalundi – en mörg hundruð komast ekki að fyrr en seint og um síðir.
Fjárveitingar hins opinbera gera ráð fyrir að 1.100 manns sé hjálpað á Reykjalundi – en mörg hundruð komast ekki að fyrr en seint og um síðir.
Endurhæfingarstofnuninni á Reykjalundi berast á hverju ári miklum mun fleiri umsóknir en mögulegt er að sinna. Því eru biðlistar þar langir og hver sem þarf á þjónustunni að halda getur þurft að bíða mánuðum saman.

„Í gegnum tíðina hafa biðlistar verið langir og það er mjög ófullnægjandi að þurfa að búa við slíkt. Eðli endurhæfingarþjónustu er að reyna að grípa inn í snemma eða eins fljótt og unnt er í sjúkdómsferlinu til að sporna gegn frekari skerðingu á færni einstaklinga og ótímabærri örorku í mörgum tilvikum,“ segir Magnús Ólason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi.

Á undanförnum árum hafa borist 50% fleiri beiðnir en hægt er að sinna. Á Reykjalundi eru endurhæfðir 1.100 einstaklingar á ári, samkvæmt þjónustusamningi. Árið 2012 bárust 1.870 beiðnir, 1.930 árið 2013 og 1.860 í fyrra. Umsóknir verða síst færri í ár, segir Magnús.

Reykjalundur er stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónustan og þátttaka hins opinbera í kostnaði við hana er skilgreind í þjónustusamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og Reykjalundar.

„Við höfum þurft að breyta starfseminni eftir hrun, en síðan hefur fjárveiting til Reykjalundar verið skert um u.þ.b. 30% og hér hefur starfsmönnum fækkað á þessum árum um 20 stöðugildi – eða á milli áranna 2007-2014. Starfsemin hefur verið færð að mestum hluta yfir á dagdeildarrekstur, auk göngudeildarstarfsemi og lítillar sólarhringsdeildar fyrir þá sjúklinga sem þurfa mesta þjónustu,“ segir Magnús.

Á Reykjalundi hefur verið reynt eftir mætti að þjónusta unga einstaklinga sem heyra ekki lengur undir þjónustu barna- eða unglingadeilda [eftir 18 ára aldur], svo sem t.d. unga heilaskaðaða.

„En bið þeirra eftir þjónustu hér er þó alltof löng að okkar mati,“ segir Magnús sem bætir við að vegna þessarar miklu eftirspurnar eftir þjónustu hafi starfsfólk á Reykjalundi neyðst til að benda mörgum sem sækjast eftir því að komast á Reykjalund á önnur úrræði, ef þess er nokkur kostur.

„Ég sé hins vegar fyrir mér að með aukinni fjárveitingu væru möguleikar á að efla þjónustu nokkurra sviða hér á Reykjalundi, m.a. á starfsendurhæfingarsviði, en það myndi skila sér margfalt til baka til þjóðfélagsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×