Innlent

Hundruð barna njóta styrkja í sumar

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Hjálparstarf kirkjunnar býður barnafjölskyldum í sumarbúðir við Úlfljótsvatn.
Hjálparstarf kirkjunnar býður barnafjölskyldum í sumarbúðir við Úlfljótsvatn. Mynd/hjálparstarf kirkjunnar
Nær tvö hundruð gjafakort Hjálparstarfs kirkjunnar hafa selst í verslunum Hagkaups nú í maímánuði. Ágóðanum af sölu gjafakortsins „Gleðilegt sumar“, sem kostar 1.200 krónur, verður varið til að styrkja efnaminni barnafjölskyldur í sumar.

„Um nokkur hundruð börn hafa notið góðs af styrkjum frá okkur á sumrin og fjöldinn verður svipaður nú,“ segir Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi.

Stuðningurinn er margþættur, að því er hún greinir frá. „Við kaupum árskort í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn og miða í útileikhúsið. Við gefum auk þess gjafakort svo að fjölskyldan geti keypt ís og hamborgara svo eitthvað sé nefnt. Markmiðið er að fjölskyldan geti gert eitthvað skemmtilegt saman.“

Verkefnið Samvera og góðar minningar er skipulagt sumarfrí fyrir barnafjölskyldur í sumarbúðum skáta við Úlfljótsvatn 8.-12. júní. Í sumarbúðunum verða 20 fullorðnir og 50 börn. Áætlað er að um helmingur þátttakenda verði fjölskyldur af erlendu bergi brotnar.

Í sumar er jafnframt á dagskrá tilraunaverkefni sem heitir Að rækta garðinn sinn, en það er matjurtarækt og námskeið um ræktun, næringargildi, matreiðslu og geymslu grænmetis. Því er ætlað að stuðla að samveru fjölskyldunnar, útivist, hreyfingu, góðri næringu, verkkunnáttu og bættri sjálfsmynd barna jafnt sem foreldra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×