Lífið

Hundrað og þrjátíu konur syngja inn sumarið

Magnús Guðmundsson skrifar
Margrét Pálmadóttir ætlar að stjórna kvennakórum á tvennum tónleikum í dag.
Margrét Pálmadóttir ætlar að stjórna kvennakórum á tvennum tónleikum í dag. Fréttablaðið/GVA
Í dag kl. 17 verða tónleikar í Norðurljósasal Hörpu undir heitinu Slétt og brugðið, konur í hundrað ár. Þar syngja saman kórarnir Vox feminae, Hrynjandi, Cantabile og Aurora. Stjórnandi verður Margrét Pálmadóttir og einsöngvarar þau Sigrún Hjálmtýsdóttir sópran og Maríus Sverrisson baritón.

Margrét segir þær hafi viljað leggja áherslu á að lofsyngja formæðurnar í tilefni af hundrað ára kosningaréttarafmæli kvenna á Íslandi. „Tilefnið er að fagna formæðrunum. Það er algjört lykilatriði og af því tilefni fóru allar þessar frábæru konur í myndaalbúmin og söfnuðu saman gríðarlegu magni mynda af íslenskum konum, lífi þeirra og sögu. Þessu verður varpað upp á tjald fyrir tónleikagesti á meðan þeir eru að koma sér fyrir í salnum.

Á tónleikunum sjálfum erum við svo að syngja gamlar perlur sem ég þekki vel úr mínu uppeldi frá síðustu öld. Við ætlum að syngja íslensku rómantíkina og Diddú ætlar að syngja Vikivaka sem var samið fyrir hana á sínum tíma. Það gleður mig alveg sérstaklega að hún ætli að vera með okkur því við erum sömu kynslóðar og fyrir mér er þetta smá nostalgía að ylja sér við.“ Þegar kórarnir fjórir verða komnir á svið í Norðurljósasalnum má búast við að um hundrað og þrjátíu konur verði komnar inn á svið. Margrét segist þó ekki óttast fjöldann. „Langt í frá. Ég er vön að stjórna stórum kórum og það er bráðskemmtilegt. Það koma alls konar blæbrigði í tónlistina og öðruvísi kraftur. Þetta er í raun alveg rosalegt hljóðfæri. Ég ætla að hita upp með því að stjórna Stúlknakór Reykjavíkur kl. 14 með 110 frábærum stúlkum. Kórinn er einmitt tuttugu ára um þessar mundir og það verður líka sumarlegt og skemmtilegt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×