Innlent

Hundrað og fjörtíu ára hús fæst gefins

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Bæjarhúsuð á Hraunum var reist 1873 úr sænskum viðum og var stórbýli á sínum tíma. Yfirsmiður var Jón Mýrdal skáld. Steypt var utan um húsið á tuttugustu öldinni.
Bæjarhúsuð á Hraunum var reist 1873 úr sænskum viðum og var stórbýli á sínum tíma. Yfirsmiður var Jón Mýrdal skáld. Steypt var utan um húsið á tuttugustu öldinni. Mynd/Þór Hjaltalín
„Það væri mikil eftirsjá að þessu húsi,“ segir Þór Hjaltalín minjavörður um gamla bæjarhúsið á Hraunum sem þarf að finna ný heimkynni eftir 140 ára veru í Fljótunum.

Bæjarhúsið á Hraunum var reist 1873 og byggt úr sænskum viði. Bærinn var sérstaklega reisulegur á síns tíma mælikvarða og mikill mannskapur á stórbýlinu Hraunum. Í tímans rás hefur verið steypt utan um húsið og sömuleiðis innan á neðri hæð þess. Af þeim sökum er neðri hæðin talin ónýt en efri rishæðirnar tvær er metnar mjög heillegar með upprunalegum þiljum og hurðum auk þess sem burðarbitar eru í sérlega góðu ástandi.

Þór Hjaltalín, minjavörður á Norðvesturlandi.Mynd/Reidun Vea
Lausnin að saga húsið í tvennt

„Það er löngu flutt úr húsinu og það hefur ekki verið í notkun mjög lengi. Það er ekki vilji eigenda til að varðveita það á þessum stað,“ segir Þór sem kveður lausnina geta falist í því að saga efri hæðirnar ofan af húsinu og flytja í heilu lagi á annan stað þar sem byggð væri ný hæð undir það.

Þótt eigendur Hrauna vilji ekki sjálfir hafa gamla húsið hjá sér vilja þeir stuðla að varðveislu þess og bjóða því húsið að gjöf.

„Ef einhver vill taka húsið þá stendur það til boða. Það er mikil saga á bak við þetta hús og hægt að gera það mjög fallega upp. Það væri staðarprýði hvert sem það færi en helst hefði maður viljað að þetta varðveittist í héraðinu,“ segir Þór.

Húsið er vel með farið. Viðir, þil og hurðir eru í sérlega góðu standi í gamla bæjarhúsinu á Hraunum.Mynd/Þór Hjaltalín
Velkomið að taka húsið

Sem sviðsstjóri Minjastofnunar á Norðurlandi vestra hefur Þór sent sveitarfélaginu Skagafirði erindi um Hraunahúsið og sagt björgun þess forgangsverkefni á sviði húsverndar í Skagafirði. Þór bendir á þann möguleika að nýta húsið á byggðasafninu í Glaumbæ. Þar er einmitt annað sambærilegt hús, svokallað Áshús sem byggt var eftir sambærilegri teikningu þótt Hraunahúsið sé stærra.

„Ef þau hafa áhuga á húsinu er eigandinn búinn að segja að þeim sé velkomið að taka það. Helst vildum við klára málið í sumar,“ segir Þór Hjaltalín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×