Innlent

Hundi lógað án leyfis: „Við fengum ekki einu sinni hræið af Funiu til að jarða hana“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Malgorzata ásamt syni sínum og Funiu.
Malgorzata ásamt syni sínum og Funiu.
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hafi ekki verið heimilt að aflífa tíkina Funiu í mars í fyrra. Funia var þýskur fjárhundur og var aflífuð vegna þess að hún beit dýraeftirlitsmann.

„Ég er ekki búin að ákveða hvert framhaldið verður. Ég þarf bara að ákveða það í samráði við lögmann minn en ég vil að minnsta kosti fá afsökunarbeiðni frá heilbrigðiseftirlitinu,“ segir Malgorzata Mordon Szacon, eigandi Funiu.

Dýraeftirlitsmaðurinn sem Funia beit hafði afskipti af tíkinni þar sem hún var að þvælast fyrir utan leikskóla og starfsfólk þorði ekki að setja börnin út. Dýraeftirlitsmaðurinn náði hins vegar ekki að fanga tíkina og hljóp hún inn í garðinn sinn.

„Svo komu hingað þrír menn frá heilbrigðiseftirlitinu og æða hérna inn í garðinn minn án míns leyfis. Ég var hrædd, ég hélt að þarna væru innbrotsþjófar á ferð, en svo tóku þeir hundinn minn og fóru bara með hann,“ segir Malgorzata.

Aðeins má aflífa hund sem er óskráður

Nokkru síðar hafði hún samband við eftirlitið og fékk þær upplýsingar að Funia hefði verið aflífuð. Malgorzata segist hafa verið í sjokki og grátið mikið þegar hún fékk þær fréttir.

Malgorzata kærði ákvörðunina um að aflífa Funiu til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála. Heilbrigðiseftirlitinu var ekki heimilt að aflífa hundinn þar sem aðeins er leyfilegt að aflífa hund án leyfis eiganda ef hundurinn er óskráður.

Funia var hins vegar örmerkt og hafði verið greitt leyfisgjald fyrir hana fyrir árið 2012. Reikningur hafi verið sendur fyrir árið 2013 en hvorki hafi verið komið að gjalddaga né eindaga.  

„Við fengum ekki einu sinni hræið af Funiu til að jarða hana. Við fengum bara að vita að hún hefði verið sett í svartan ruslapoka og svo ekki söguna meir,“ segir Malgorzata.


Tengdar fréttir

Beit hundafangara og var lógað

Þýskur fjárhundur var aflífaður í Reykjanesbæ eftir að hafa ráðist á hundafangara. Malgorzata Mordon Szacon og fjölskylda hennar höfðu átt tíkina Funiu í sex ár. Fjölskyldan hefur ráðið sér lögfræðing og íhugar að leita réttar síns, þar sem þau nutu ekki andmælaréttar áður en ákvörðun um að drepa hundinn var tekin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×